9.6.2023 10:34

Varnaðarorð seðlabankastjóra

Seðlabankastjóri trúir ekki öðru en allir sem áttu hlut að sundrungunni innan ASÍ (þar var Sólveig Anna í fremstu röð) hljóti að hafa lært eitthvað af því sem þá gerðist.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lýsti skoðun sinni á kjarasamningum liðins vetrar í Morgunblaðinu 8. júní. Afleiðingar þess sem gerðist þá teygir sig nú fram á sumarið í óleysanlegri deilu BSRB við Samband ísl. sveitarfélaga, önnur stéttarfélög sömdu en ekki BSRB. Krísan af völdum BSRB er víti til að varast.

Ásgeir sagði meðal annars frá símtali við Aðalstein Leifsson, þáv. ríkissáttasemjara, sem vildi að við vaxtaákvarðanir yrði haft til hliðsjónar að Ragnar Þór Ingólfsson „formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum“.

Þessi lýsing á framgöngu formanns VR er aðeins enn eitt dæmið um hve hvatvís hann getur verið, fimm gömul dæmi skulu nefnd: (1) Hann boðaði að hann ætlaði að stofna stjórnmálaflokk; (2) hann vildi ekki að fólk eða lífeyrissjóðir keyptu hlutabréf í Icelandair; (3) hann ætlaði að verða forseti ASÍ en yfirgaf ASÍ-þingið; (4) hann gerði kjarasamning en skrifaði ekki undir hann; (5) hann boðaði fundaröð á Austurvelli til að lækka vexti en hélt bara einn fund. Nú er svo upplýst að í von um kjarasamning lét ríkissáttasemjari sig hafa það að hringja í seðlabankastjóra með tilmælum um að ákvarðanir um vexti yrðu teknar með hliðsjón af skaplyndi formanns VR.

1403701Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (mynd: mbl.is).

Þau eru í órólegu bandalagi innan verkalýðshreyfingarinnar Ragnar Þór og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Hún tekur upp hanskann fyrir félaga sinn 8. júní á vefsíðu sósíalista, Samstöðinni, undir ritstjórn Gunnars Smára Egilssonar.

Sólveig Anna segir að í hugarheimi Ásgeirs seðlabankastjóra sé almenningur í landinu „algjörlega skilningsvana fífl“. „Við erum öll heimsk, við erum óstöðug í skapi, við vitum ekki hvað við viljum, þegar við mótmælum þá erum við í raun bara að mótmæla sjálfum okkur, heimskir smábændur með ryðgaðar heykvíslar í hönd“ segir Sólveig Anna.

Enginn hefur lagt meira á sig undanfarin misseri til að skapa ósætti og veikja samstöðuafl verkalýðshreyfingarinnar en einmitt formaður Eflingar. Aðfarir hennar gegn andstæðingum sínum innan og utan eigin félags einkennast af takmarkalausri heift og mannvonsku.

Ásgeir Jónsson sagði réttilega að haustið 2022 hefði ASÍ, samstarfsvettvangur verkalýðshreyfingarinnar, verið „óvirkur“. Hann hefði breyst „í samkeppni einstakra verkalýðsfélaga“. Það hefði verið „erfið staða fyrir alla, bæði þá sem sömdu fyrst og þá sem komu á eftir“. Þetta blasir við núna hjá BSRB eins og vikið var að hér í upphafi.

Seðlabankastjóri trúir ekki öðru en allir sem áttu hlut að sundrungunni innan ASÍ (þar var Sólveig Anna í fremstu röð) hljóti að hafa lært eitthvað af því sem þá gerðist. „Á Íslandi verða allir að sitja við sama borð í svona ákvörðunum,“ segir hann og einnig þetta:

„Ég er alltaf bjartsýnn og ég tel að fólk hljóti að hafa dregið lærdóm af síðasta vetri. Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli.“

Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hann má þó ekki liggja í þagnargildi.