10.11.2019 12:20

Varnaðarorð á minningardegi

Þess er minnst víða að 11. nóvember verður 101 ár liðið frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Bretar leggja sig sérstaklega fram um að viðhalda þessum minningardegi.

Þess er minnst víða að 11. nóvember verður 101 ár liðið frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Bretar leggja sig sérstaklega fram um að viðhalda þessum minningardegi. Í tilefni af honum birti The Sunday Telegraph 10. nóvember grein eftir Sir Nick Carter, yfirmann breska herráðsins, undir fyrirsögninni: Reckless Russia could accidentally trigger a third world war – Ófyrirleitnir Rússar gætu fyrir slysni hafið þriðju heimsstyrjöldina.

_109599926_tv057901591Fyrirsögnin ein er til marks um andrúmsloftið sem nú ríkir í alþjóðlegum öryggismálum. Breski hershöfðinginn segir að þar megi sjá stöðuga árekstra og að nýju megi sjá merki um keppni á milli stórvelda. Metnaðarfullar þjóðir eins og Rússar, Kínverjar og Íranir láti að sér kveða á þann hátt að um sé að ræða „áskorun fyrir öryggi okkar, stöðugleika og hagsæld“.

Í greininni segir:

„Stjórnmál og hermál þróast hratt, þar ráða stöðug miðlun upplýsinga og sífelldar tæknilegar breytingar. Keppinautar okkar hafa náð meistaralegum árangri við að nýta sér samskeytin milli friðar og stríðs. Vopn á þessu „gráa svæði“ þurfa ekki lengur að springa með „hvelli“.

Orka, mútufé, spilltar viðskiptaaðferðir, netárásir, launmorð, falsfréttir, áróður, hermenn í ómerktum einkennisbúningum. einkaherir og öryggisfyrirtæki sem enginn segist þekkja, stuldur á birgðaleiðum, hugverkaþjófnaður og gamaldags hernaðarlegur yfirgangur eru allt dæmi um annarskonar nýaldar „vopn“ sem beitt er sér til framdráttar, til að ala á sundrung, grafa undan stjórnmálalegri samheldni okkar og eyðileggja lifnaðarhætti okkar á lævíslegan hátt.

Við höfum séð mörg dæmi um þetta á síðari tímum. Staðgenglar eru notaðir í Mið-Austurlöndum; Waldhauser hershöfðingi, yfirmaður bandarísku Afríkuherstjórnarinnar, hefur vakið athygli á glæpaverkum Wagner-einkaherverktakans í eigu Rússa í Afríku; The New York Times fullyrðir að Rússar hafi gert tilraunir með nýja aðferð við upplýsingafalsanir í risavaxinni Facebook-aðgerð víðs vegar í Afríku og uppljóstrun Daily Maverick í Suður-Afríku um að Russkíj Mir (Rússnesk veröld) láti að sér kveða í níu Afríkulöndum.

Með þessu segi ég ekki að andstæðingar okkar vilji hefja stríð í hefðbundnum skilningi en ófyrirleitni og virðingarleysi fyrir alþjóðalögum sem snertir þessar nýjar gerðir „vopna“ kalla á hættu af stigmögnun sem gæti auðveldlega leitt óviljandi til misreiknings.“