10.8.2019 9:31

Varað við upplýsingafölsunum

Hugleiðingar Anne Applebaum um upplýsingafalsanir og nauðsyn baráttu gegn þeim eiga erindi til Íslendinga.

Anne Applebaum, dálkahöfundur hjá Washington Post, birti föstudaginn 9. ágúst viðvörun til lesenda sinna. Þeim bæri að gæta sín á láta ekki blekkjast af boðskap upplýsingafalsara. Ræðir hún sérstaklega um þá sem lagst hafa gegn bólusetningu barna.

Andróðurinn gegn bólusetningum var einstaklega þungur á Ítalíu og þar tóku þær að dragast saman árið 2012. Á árinu 2015 var einna minnst um bólusetningar gegn mislingum á Ítalíu. Hlutfall þeirra sem létu bólusetja sig var 85%, það er lægra en á Indlandi. Árið 2017 varð síðan mislingafaraldur á Ítalíu, meira en 5.000 veiktust og fjórir dóu.

Applebaum segir vandalaust að sjá hvernig þetta gerist. Ítalir séu frægir fyrir tortryggni í garð stjórnvalda og þar sé hefð fyrir læknisfræðilegum blekkingarleik. Þessu til viðbótar hafi stjórnmálaflokkurinn Fimm-stjörnu-hreyfingin gert hosur sínar grænar fyrir andstæðingum bólusetninga í anda óvildar í garð ráðandi afla og grunsemda í garð ráðandi lækna. Í andófinu á Ítalíu var alið á ótta eins og í Bandaríkjunum, vísað í afskrifaða grein sem sögð var hafa vísindalegt gildi.

C76e972bdeba61c431b03c34d53b270a5da66b74018c0a8fa751cb5136118127Ítölskum lækni og prófessor, Roberto Burioni, varð að lokum nóg boðið. Hann sagði við Applebaum að hann hefði ekki getað setið aðgerðarlaus gegn upplýsingafölsurunum. Hann sagði andstæðingum bólusetninga stríð á hendur og beitti sér gegn þeim á netinu. Barátta hans bar þann árangur að að fyrrverandi ríkisstjórn Ítalíu setti skilyrði fyrir skráningu á leikskóla, aðeins bólusett börn fengju aðgang. Nú er Fimm-stjörnu-hreyfingin með heilbrigðisráðherraembættið og treystir sér ekki til að afnema skilyrðið um bólusetningu.

Applebaum segir frá öðrum sem börðust fyrir bólusetningum á annan veg en Burioní en lýkur pistli sínum á þessum orðum:

„Í heimi þar sem samsæriskenningar – læknisfræðilegar, vísindalegar og auðvitað stjórnmálalegar – ber hátt er þetta meira en forvitnilegt athugunarefni. Þetta ætti að vera upphaf nýrra aðferða til að glíma almennt við upplýsingafalsanir. Bólusetningum fjölgar á Ítalíu, farsóttum fækkar, og það þurfti afskipti ólíks fólks sem beitti mismunandi málflutningi til að þetta gerðist.“

Hugleiðingar Anne Applebaum um upplýsingafalsanir og nauðsyn baráttu gegn þeim eiga erindi til Íslendinga ekki síður en lesenda hennar í Bandaríkjunum – hér ríkir upplýsingafalsanastormur um þessar mundir.