16.11.2024 9:47

Vantraust Sigmundar Davíðs

 Í mars 2018 studdi Sigmundur Davíð tillögu um vantraust á Sigríði Á. Andersen sem dómsmálaráðherra vegna deilna um skipan dómara í landsrétt.

Hér hefur nokkrum sinnum verið vikið að því í áranna rás hve óstöðugur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er í skoðunum sínum. Hann hefur nú valið Sigríði Á. Andersen, fyrrv. þingmann Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra, í efsta sæti á lista flokks síns í Reykjavíkurkjördæmi norður.

1529542Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Á. Andersen (samsett mynd mbl).

Í mars 2018 studdi hann tillögu um vantraust á Sigríði Á. sem dómsmálaráðherra vegna deilna um skipan dómara í landsrétt.

Þetta var rifjað upp í þættinum Spursmál nú 15. nóvember og afsakaði Sigmundur Davíð atkvæði sitt gegn Sigríði Á. með því að segja að hann hefði viljað vantraust á ríkisstjórnina í heild. Í stað þess að láta þau orð nægja og sitja hjá gekk hann lengra með þeim orðum í skýringu á atkvæði sínu að hann hefði hvorki tekið að sér „að verja þessa ríkisstjórn vantrausti né að veita henni hlutleysi“. Eðli máls samkvæmt styddi hann því tillögur um vantraust á ríkisstjórnina eða ráðherra hennar, þótt hann tæki ekki undir málflutning flutningsmanna tillögunnar.

Í Morgunblaðinu í dag, 16. nóvember, áréttar hann að vantraustsatkvæði sitt hafi ekki verið gegn Sigríði Á. heldur ríkisstjórninni. Þetta er að sjálfsögðu fyrirsláttur.

Formennska Sigmundar Davíðs í Framsóknarflokknum í janúar 2009 þegar flokkurinn átti mjög undir högg að sækja kom mörgum á óvart.

Fyrsta verk Sigmundar Davíðs var að veita minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hlutleysi og gengu þingmenn Framsóknarflokksins mjög hart fram í að fá stjórnarskránni breytt auk þess sem ýmsir þeirra studdu aðild Íslands að ESB.

Í minningarbókum sem lýsa stjórnartíð vinstri stjórnarinnar sem sat frá 1. febrúar 2009 fram á vor 2013 er hvað eftir annað vikið að því hve forráðamönnum stjórnarinnar þótti erfitt að þurfa að leita til Sigmundar Davíðs.

Formaður Framsóknarflokksins sveiflaðist svo í afstöðu sinni að enginn treysti honum að fullu fyrr en Ólafur Ragnar veitti honum umdeilt umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningar 2013 í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sigmundur Davíð hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra vorið 2016 og síðan úr Framsóknarflokknum. Hann stofnaði Miðflokkinn sér til framdráttar og hefur síðan markvisst afneitað því úr pólitískri fortíð sinni sem honum finnst óþægilegt í núverandi stöðu. Nú bætist afstaðan til vantraustsins á Sigríði Á. Andersen á þann lista.

Sigríði Á. Andersen er mikið í mun að sýna og sanna pólitíska prinsippfestu sína með því að draga skýrar línur. Með framboði sínu fyrir Miðflokkinn gekk hún hins vegar inn á grátt svæði Sigmundar Davíðs. Hafi hún sannfærst um að flokksleiðtoginn hafi ekki verið að greiða atkvæði um vantrauststillögu á hana þegar hann gerði það með því að kveikja græna ljósið með atkvæðahnappnum hefur Sigríður Á. strax afsalað sér einhverju af prinsippfestunni til að hljóta virðingarsess í nýjum félagsskap.