2.10.2025 11:11

Vantraust Kristrúnar á Degi B. skýrist

Engin skýring hefur fengist á þessari neikvæðu afstöðu flokksformannsins. Hún hlýtur að vera reist á reynslu Kristrúnar af því að starfa með Degi B. innan Samfylkingarinnar.

Það vakti athygli fyrir þingkosningar 30. nóvember 2024 að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar benti kjósendum á að strika yfir nafn Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra flokks hennar, á framboðslistanum þar sem Kristrún sat í efsta sæti. Þá hefur hún ekki heldur viljað fá hann í neinar trúnaðarstöður á vegum þingflokks Samfylkingarinnar.

Engin skýring hefur fengist á þessari afstöðu flokksformannsins. Hún hlýtur að vera reist á reynslu Kristrúnar af því að starfa með Degi B. innan Samfylkingarinnar.


Screenshot-2025-10-02-at-11.09.49Samsett mynd sem birtist á mbl.is 26. október 2024.

Innan þingsins hefur Dagur B. látið til sín taka í umræðum um öryggis- og varnarmál. Hann er varamaður í utanríkismálanefnd þingsins, er formaður Íslandsdeildar á NATO-þinginu og sat í starfshópi sem utanríkisráðherra skipaði um mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum.

Dagur B. leggur í Morgunblaðinu í dag (2. október) út af því sem Jens Stoltenberg, fyrrv. framkvæmdastjóri NATO, segir í endurminningum sínum um samtal við Trump sem spurði hvað ætti að gera við Ísland þegar hann sá á lista að Íslendingar legðu ekkert fé til hermála. Frásögn af viðbrögðum Trumps vegna þessa er orðin að eins konar flökkusögu því að sagt er að Jim Mattis, varnarmálaráðherra Trumps, hafi á sínum tíma skýrt ástæðuna fyrir forsetanum. Engum sögum fer af því að Trump hafi hreyft þessu við íslenska ráðamenn.

Á þessum grunni reisir Dagur B. síðan söguskýringu sína á brottför varnarliðsins héðan 30. september 2006. Þar gætir ekki neinnar nákvæmni. Hann segir brottförina hafa orðið fyrir rúmum 20 árum og „aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna“ hafi slegið „á þráðinn til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra Íslands“. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra fram á mitt ár 2006 og þá tók Geir H. Haarde við embættinu og gegndi því 30. september 2006.

Ríkisstjórn Geirs var vel undir þetta búin og sendi frá sér tilkynningu um ráðstafanir sem gerðar yrðu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Dagur B. segir: „Stöðumat Íslendinga og Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem að eigin mati „vissi og kunni“ í varnarmálum, hrundi með braki. Morgunblaðið hafði eftir Davíð að hann íhugaði að segja upp varnarsamningnum.“ Þetta er hreinn hugarburður. Davíð Oddsson gegndi embætti seðlabankastjóra þegar varnarliðið hvarf af landi brott og hafði ekkert um varnarsamninginn að segja.

Geir H. Haarde beitti sér fyrir því að árið 2008 hófst hér loftrýmisgæsla af hálfu NATO. Það hefur ekkert með eflingu Evrópustoðar í vörnum Íslands að gera eins og Dagur B. ímyndar sér.

Til að skaprauna forsætisráðherra hefur Dagur B. tekið sér stöðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og krafist þess að fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB verði flýtt. Lygasagan sem hann semur um Sjálfstæðisflokkinn og brottför varnarliðsins er til stuðnings þeirri skoðun sem birtist í lokasetningu greinar hans: „Rökin fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu hrannast upp.“

Kristrún treystir Degi B. ekki af því að hann er ómerkilegur pólitískur pappír.