Vantraust í þágu geðþótta
Það eitt að flytja vantrauststillögu á ráðherra af svo undarlegu tilefni hlaut að leiða til þess að tillagan yrði felld.
Furðulega tillagan um vantraust á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem felld var með 35 atkv. gegn 22 á alþingi í gær (30. mars) snerist um gamla kröfu þingmanna Pírata um að þeir sem sækja um ríkisborgararétt til alþingis njóti forgangs við meðferð útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt. Regluna um að gengið skuli á biðlista umsóknanna án tillits til þess hvort umsóknin sé til alþingis setti dómsmálaráðherra að fenginni athugasemd umboðsmanns alþingis um langan málsmeðferðartíma í stjórnsýslunni. Við þetta umturnuðust þingmenn Pírata og hafa síðan virkjað Samfylkingu, Viðreisn og Flokk fólksins til stuðnings við sig.
Það eitt að flytja vantrauststillögu á ráðherra af svo undarlegu tilefni hlaut að leiða til þess að tillagan yrði felld. Dómgreind stjórnarandstöðunnar kann að vísu að vera svo brengluð að hún hafi ímyndað sér að hún gæti fellt ríkisstjórnina vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna um þetta stjórnsýslumál.
Frá umræðunum um vantraust á þingi 30. mars 2023 (mynd:Visir/Vilhelm).
Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar og svo hefur verið frá gildistöku stjórnarskrár konungsríkisins Íslands, nr. 9/1920, sbr. 64. gr. hennar. Í ríkisborgaralögum segir að þingið skuli bíða eftir að útlendingastofnun fái umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda auk þess skuli útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina. Þingmenn geta vikið lögbundnum skilyrðum til hliðar fái þeir umsóknir til afgreiðslu.
Stjórnarskrárákvæðið hér er frá Danmörku og þar sitja þingmenn yfir þessum málum. Fyrir um það bil mánuði birtust fréttir um að danska tilhögunin sem færir þingmönnum lokaákvörðun um veitingu ríkisborgararéttar sætti vaxandi gagnrýni fræðimanna. Vald danskra stjórnmálanna í ríkisborgaramálum væri leifar frá 19. öld „sem ættu ekki að sjást í réttarríki samtímans,“ sagði Patrick Wautelet, lagaprófessor við Liége-háskóla í Belgíu.
Vitnað var í þrjá prófessora í jafnmörgum ESB-löndum sem sögðu að dönsku valdheimildirnar ýttu undir að tilviljanir (geðþótti) réðu afgreiðslu umsókna og mannréttindabrotum fjölgaði.
Reglur um ríkisborgaraforræði þingmanna hafa verið afnumdar í Rúmeníu, Hollandi og Belgíu segir René de Groot, fyrrverandi prófessor í samanburðarlögfræði við Maastricht-háskóla. Honum finnst „mjög athyglisvert“ að þessi rúma regla gildi enn í Danmörku. Prófessor Maarten Vink við Evrópsku háskólastofnunina í Flórens á Ítalíu segir að geðþóttaaðferðin sem danskir stjórnmálamenn noti sé úrelt í Evrópu.
Fyrsti flutningsmaður vantrausttillögunnar 30. mars, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Pírati), skreytir sig stundum með því að hún hafi gegnt formennsku í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins sem fulltrúi þingflokks sósíalista á þinginu. Geðþóttaákvarðanir í ríkisborgaramálum eins og Þórhildur Sunna vill að gildi hér eru eitur í beinum talsmanna mannréttinda í Evrópu. Skyldi Þórhildur Sunna flytja þann boðskap á Evrópuráðsþinginu að geðþótti þingmanna skuli ráða um ríkisborgararétt og vísa beri ráðherrum sem vilja að farið sé að gagnsæjum og óhlutdrægum reglum á brott með vantrausti?