22.10.2018 21:58

Vanstilling í nafni byltingar

Sólveig Anna telur boðskap sinn byltingarkenndan og segir „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“

Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins,  sagði í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 19. október:

„Þetta lítur ekki vel út. Líkur á að svartsýnustu spár um þróunina á vinnumarkaði í vetur – verkföll og skæruaðgerðir – verði að veruleika hafa aukist til muna nú þegar Starfsgreinasamband Íslands og VR, stærstu verkalýðsfélög landsins, hafa sett fram kröfur sínar í kjaraviðræðum. Þeim verður ekki lýst öðruvísi en sem sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika.“

Þetta raunsæja mat varð til þess að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði á Facebook sunnudaginn 21. október:

„Ég finn mig knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins, “Stærsta ógnin”, sem birtist á föstudaginn var. Þó langar mig það ekkert. Mér [svo!] langar ekki að virða fólk sem beitir hiklaust hótunum viðlits. En því miður er svo komið fyrir talsmönnum óbreytts ástands að þeir hika ekki við reyna að kúga vinnandi fólk til hlýðni með sjúkri og viðbjóðslegri orðræðu og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að sýna að í mér rennur blóð.“

Reiðikast Sólveigar Önnu sannar aðeins réttmæti þeirra orða Harðar að forystumenn helstu verkalýðsfélaga landsins séu „stærsta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks á komandi árum“.

31408427_1543167259114758_9166046322376048640_nForystumenn Eflingar: Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson. Myndin er af vefsíðu Eflingar.

Sólveig Anna telur boðskap sinn byltingarkenndan og segir „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“

Vanstillingin í skrifum formanns Eflingar er jafnvel meiri en hjá Gunnari Smára Egilssyni, forystumanni Sósíalistaflokksins, byltingarflokksins, eftir að skýrt var frá greiðslum Eflingar til eiginkonu hans. Hann réðst þá með svívirðingum á fjármálastjóra Eflingar sem Sólveig Anna setti í veikindaleyfi. Nú ræðst Sólveig Anna á ritstjóra Markaðarins með illmælgi og fordæmingu.

Byltingarfólkið í Sósíalistaflokknum á mjög erfitt með að hemja sig gagnvart þeim sem er því ekki sammála. Að hag félagsmanna í Eflingu, 27.000 talsins, sé best borgið undir forystu þeirra sem ganga fram af slíkum ofsa er af og frá. Það er vegna upphlaupa af þessu tagi og óvissunnar sem fylgir þeim sem hriktir í krónunni.

Þessi stóryrðaflaumur eyðir ekki nauðsyn þess að forystumenn launþega leggi fram kostnaðarmat á eigin kröfum. Sýni umbjóðendum sínum og viðsemjendum hvernig verðmeta beri kröfurnar. Það er lágmarkskrafa í upphafi átaka að vita um hvað er barist.