2.3.2022 11:20

Vansæll sendiherra Rússa

Táknrænar aðgerðir hitta diplómata í hjartastað, þeim eiga íslensk yfirvöld að beita gegn sendiherra Rússa á Íslandi sem móðgar forseta Íslands, lýgur í fjölmiðlum og svertir ímynd Íslands í huga Rússa.

Fyrir réttum tveimur vikum, 16. febrúar, sendi Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, samstöðukveðju til Volodymyrs Zelenskíjs Úkráínuforseta á samstöðudegi í Úkraínu gegn umsátri Rússa. Vegna kveðju forsetans sá Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússa á Íslandi, ástæðu til að finna að við forsetann og einnig við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.

XHgMd9GGQ34P_1800x1200_8kKMT8eOMikhaíl Noskov, sendherra Rússa, (skjáskot af rúv).

Næst, 24. febrúar, daginn sem Pútin gaf fyrirmæli um innrásina í Úkraínu var rætt við (!) sendiherrann í fréttum ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2. Hann fann að því að menn töluðu um innrás í Úkraínu, Pútin hefði vísað til „sérstakra aðstæðna rússneskra borgara“ þetta væri „alls ekki innrás á yfirráðasvæði Úkraínu“. Hann tók undir með Pútín að Úkraína væri nasistaríki: „Fyrir okkur er það algerlega skýrt að það eru nasísk öfl í Úkraínu ... úkraínsk yfirvöld gera ekkert til að bæla niður þessi nasísku öfl,“ sagði fulltrúi Pútins á Íslandi.

Hann taldi ekki mikið mál fyrir Rússa að standa af sér efnahagsþvinganir Vesturlanda, Rússar hefðu búið við refsiaðgerðir „ekki aðeins frá 2014 heldur einnig á Sovéttímanum, á áttunda áratugnum, á níunda áratugnum“.

Mánudaginn 28. febrúar birtist frétt frá rússnesku fréttastofunni RIA Novosti þar sem haft er eftir Mikhaíl Noskov, sendiherra í Reykjavík, að frá því að „sérstöku aðgerðirnar hófust í Donbass 24. febrúar“ hefðu rússneskir diplómatar sætt stöðugum ofsóknum. Efnt hefði verið til tveggja fjöldafunda. Eftir annan þeirra hefði óþekktur maður „vanheill á geðsmunum“ brotið niður sendiráðshliðið og reynt að eyðileggja öryggismyndavél. Hann hefði verið handtekinn og farið með hann á lögreglustöð. Hér er vitnað til frásagnar af frétt RIA Novosti sem birtist á vefsíðunni Pledge. Þar segir að auk „árásarinnar“ á sendiráðið í Reykjavík hafi óþekktur maður reynt að brjótast inn í ræðisskrifstofu Rússa í Busan í S-Kóreu.

Á visir.is var sagt frá þessu atviki og frétt rússneskra fjölmiðla mánudaginn 28. febrúar. Lögregla staðfesti að afskipti hefðu verið höfð af einstaklingi við sendiráðið 27. febrúar, en lögreglumenn skráðu ekkert um ofbeldi eða skemmdarverk í kerfi sitt.

„Hann fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið og var þá tekinn niður á stöð, en sleppt eftir smá viðtal,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, um viðkomandi einstakling sem sendiherrann ákvað að kynna til sögunnar í rússneskum fjölmiðlum til að sverta þar ímynd Íslands og slá sér upp í augum Pútins. „Við fáum stanslaust móðgunar- og hótunarbréf í tölvupósti, símtöl og svo fúkyrði á samfélagsmiðlum,“ sagði sendiherrann einnig við RIA Novosti.

Fa697b8f-63b5-4d7b-9df4-59adaf6d6e1aDiplómatar yfirgefa fundarsal í Genf þegar fjar-ávarp Seirgeijs Lavrovs hefst.

Þegar yfirmaður sendiherrans, Sergeij Lavrov utanríkisráðherra, flutti fjar-ávarp á afvopnunarráðstefnu í Genf þriðjudaginn 1. mars yfirgáfu sendinefndir annarra ríkja fundinn og rússnesku diplómatarnir sátu vandræðalegir í mannauðum salnum.

Táknrænar aðgerðir af þessu tagi hitta diplómata í hjartastað, þeim eiga íslensk yfirvöld að beita gegn sendiherra Rússa á Íslandi sem móðgar forseta Íslands, lýgur í fjölmiðlum og svertir ímynd Íslands í huga Rússa.