13.2.2021 11:37

Vandræði vegna ummæla

Þrjár fréttir frá liðnum sólarhring sýna að víða er þráðurinn stuttur í mannlegum samskiptum eins og jafnan áður.

Yoshiro Mori, 83 ára, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, sagði af sér sem forstjóri ólympíuleikanna 2020 sem ætlunin er að efna til í ár, 2021. Á blaðamannafundi föstudaginn 12. febrúar flutti hann „dýpstu afsökun“ sína vegna ummæla sem höfð voru eftir honum og féllu á lokuðum fundi. Hann viðurkenndi að þau hefðu verið óviðeigandi og leitt til mikilla vandræða.

Það sem olli uppnámi og haft var eftir Mori þótti óvirðing við konur. Hann sagði „meiri tíma fara í stjórnarfundi með þátttöku kvenna“ vegna þess að „konur eru kappsfullar – lyfti ein hendi og biðji um orðið, kann öðrum einnig þykja nauðsynlegt að taka til máls“.

Sama dag og Mori tilkynnti afsögn sína bað Bill Michael, stjórnarformaður endurskoðunarfyrirtækisins KPMG í Bretlandi, um að verða leystur frá störfum. Á starfsmannafundi mánudaginn 8. febrúar sagði hann starfsmennina vera í „mjög heppinni grein“ og „þau [gætu] ekki leikið hlutverk fórnarlambs nema þau [væru] veik, og ég vona að þið séuð ekki veik ... Og ef þið eruð það ekki náið þá tökum á lífi ykkar, sitjið ekki þarna og vælið“.

Yoshiro-mori-resigns-gty-210_hpMain_20210212-044413_16x9_1600Yoshiro Mori. 83 ára, segir af sér vegna óviðeigandi ummæla um konur.

Bill Michael sendi frá sér tilkynningu föstudaginn 12. febrúar með afsögn sinni og sagðist innilega harma hefðu orð hans sært samstarfsmenn hans. Þá baðst hann afsökunar ef atburðir vikunnar hvíldu þungt á starfsfólkinu en blaðið Daily Mail birti myndband frá starfsmannafundinum sem vakti mikla athygli og umræður.

Á vefsíðunni visir.is birtist laugardaginn 13. febrúar frétt um að TJ Ducklo í fjölmiðlateymi Joes Bidens Bandaríkjaforseta hefði verið vikið tímabundið frá störfum vegna áreitni í garð blaðamanns. Hann hefði ógnað Töru Palmeri, blaðamanni Politico, þegar hann komst að því að hún væri að rannsaka ástarsamband Ducklo við aðra blaðakonu.

Ducklo hringdi í Palmeri sama dag og Joe Biden var settur í embætti. Forsetinn flutti eftir innsetninguna ávarp á fjarfundi með starfsmönnum sínum og sagði:

„Ég geri ekki að gamni mínu þegar ég segi þetta: Séuð þið einhvern tíma að störfum með mér og ég heyri ykkur sýna öðrum óvirðingu, tala niður til einhvers, heiti ég því að reka ykkur á staðnum. Án allra málalenginga.“

Nú velta fjölmiðlamenn í Washington fyrir sér hvers vegna hótanir starfsmanns Bidens í garð eins þeirra um „tortímingu“ leiði aðeins til launalausrar brottvísunar í eina viku.

Í fréttum vegna þessa atviks segir að hótun Ducklos sé í anda annarra viðbragða starfsmanna Bidens gagnvart fjölmiðlamönnum. Óvildin í garð þeirra birtist ekki á eins augljósan hátt og hjá Donald Trump, hún sé þó síður en svo úr sögunni.

Þrjár fréttir frá liðnum sólarhring sýna að víða er þráðurinn stuttur í mannlegum samskiptum eins og jafnan áður. Þegar Mori, 83 ára, sagði af sér gat hann þess að sér þætti sjálfum miður þegar hann sætti því sem á íslensku er nefnt ellismánun en rougai á japönsku, orðið er notað í Japan til að lýsa því að gamalt fólk sé gagnslaust og þvælist í raun fyrir öðrum.