13.11.2020 11:01

Vandræðaleg afneitun Trumps

Tvennt er Trump efst í huga þegar hann neyðist loks til að játa sig sigraðan, að kerfið hafi snúist gegn sér með kosningasvindli og hann eigi í raun enga vini meðal öflugra fjölmiðla.

Fréttir eru um að Donald Trump sé svo reiður Fox News sjónvarpsstöðinni sem studdi hann dyggilega í forsetatíð hans að hann hafi í huga að nota gagnagrunninn mikla sem hann hefur skapað með netföngum og farsímanúmerum í forsetatíð sinni til að koma á fót streymisveitu í þeim tilgangi að grafa undan stöðinni.

Sagt er að soðið hafi upp úr hjá Trump þegar Fox News varð fyrst til að lýsa Joe Biden sigurvegara í Arizona-ríki, skoðun sem AP-fréttastofan studdi síðan.

Nú eru 10 dagar frá kjördegi og í gærkvöldi (12. nóvember) lá lokst staðfest niðurstaða fyrir um að Biden fengi 11 kjörmenn frá Arizona. Þetta er í fyrsta sinn frá 1996 sem meirihluti kjósenda í Arizona styður forsetaframbjóðanda demókrata. Repúblikanar hafa löngum sett sterkan svip á stjórnmál ríkisins og þaðan komu forystumenn þeirra Barry Goldwater og John McCain sem báðir buðu sig fram til forseta.

Þótt Fox News reynist hafa rétt fyrir sér um úrslitin í Arizona verður það ekki til að sefa reiði Trumps í garð stöðvarinnar. Trump kvartar undan því að æ oftar sé rætt við demókrata á Fox News. Hann segir að í sínum huga skilji það einna mest á milli kosningabaráttunnar nú og árið 2016 að Fox News hafi breyst sér í óhag.

Usa-electiontrump-fundraisingTvennt er Trump efst í huga þegar hann neyðist loks til að játa sig sigraðan, að kerfið hafi snúist gegn sér með kosningasvindli og hann eigi í raun enga vini meðal öflugra fjölmiðla.

Að kvöldi fimmtudags 12. nóvember lá ekki aðeins örugglega fyrir að Trump hefði tapað í Arizona heldur birtu alríkisyfirvöld og yfirvöld í einstökum ríkjum yfirlýsingu um að kosningarnar 3. nóvember hefðu verið „öruggustu kosningar í sögu Bandaríkjanna“. Nú ynnu kjörstjórnir um landið allt að því að sannreyna í annað sinn að rétt hefði verið að öllu staðið áður en endanleg niðurstaða kosninganna yrði kynnt.

Að þessari yfirlýsingu standa Election Infrastructure Government Coordinating Council og Election Infrastructure Sector Coordinating Council. Fyrri nefndin er skipuð embættismönnum alíkisstjórnarinnar og stjórna einstakra ríkja, fulltrúar almennings sitja í hinni stjórninni. Það er skylda þessara aðila að tryggja örugga framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum.

Hve lengi Trump neitar að hafna niðurstöðu kosninganna kemur í ljós en gagnrýni á hann fyrir framgöngu hans eykst innan flokks repúblikana. Peggy Noonan er dálkahöfundur í Wall Street Journal. Hún segist hafa rætt við fjölda forystumanna innan flokks repúblikana um afneitun Trumps vegna kosninganna og segir:

„Þeir vænta þess að þetta komi í ljós [að Trump tapaði] í misheppnuðum málaferlum og yfirlýsingum einstakra ríkja um staðfestar lokatölur atkvæða. Væri ekki bara betra ef öldungadeildarþingmenn repúblikana tækju einfaldlega af skarið opinberlega og viðurkenndu hið augljósa: að Joe Biden vann? Jú, þó ekki væri nema í þágu heiðarleika og til að sýna hinum helmingi þjóðarinnar, Biden-fólkinu, að þeir sjái og hafi augu.“

Það er oft erfitt að tapa – einkum ef maður hugsar bara um sjálfan sig.