Vandi vegna dróna þar og hér
Það má til dæmis spyrja sig hvers vegna fulltrúi utanríkisráðuneytisins hafi verið kallaður í Kastljós miðvikudaginn 24. september til að ræða viðbúnað við hugsanlegri drónaárás á Ísland.
Danskir ráðherrar, varnarmála og dómsmála, efndu til blaðamannafundar í morgun (25. september) ásamt ríkislögreglustjóra og yfirhershöfðingja Danmerkur til að skýra þjóðinni frá viðbrögðum stjórnvalda við flugi ókunnra dróna yfir borgaralegum og hernaðarlegum flugvöllum um Danmörku þá um nóttina.
Eftir blaðamannafundinn er það mat blaðamanna sem hann sátu og annarra að hafi það verið tilgangur hans að skapa ró í dönsku samfélagi þrátt fyrir þessa atburði hafi það gjörsamlega mistekist. Fyrrverandi yfirmaður aðgerða í leyniþjónustu dönsku lögreglunnar (PET) sagði að þvert á móti hefði fundurinn ýtt undir ótta almennings.
Yfirvöldin virðast gjörsamlega ráðalaus gegn því sem varnarmálaráðherrann kallaði fjölþáttaárás (d. hybridangreb). Ríkislögreglustjórinn dró ef til vill úr þeim orðum með því að segja að engin merki væru um árás en á hinn bóginn vissi enginn hvaðan drónarnir hefðu komið eða hvert þeir hefðu farið.
Mánudaginn 22. september stöðvaðist öll flugumferð um Kastrupvöll við Kaupmannahöfn vegna ókunnra dróna. Þá náðist engin mynd af þeim eða neinar upplýsingar sem auðvelda greiningu á uppruna þeirra.
Óvissa af þessu tagi er mjög erfið fyrir alla. Hafi maður verið öryggislaus fyrir blaðamannafundinn minnkar hræðslan ekki eftir hann, segir stjórnmálaskýrandi Berlingske. Nú hefur danska stjórnin tekið málið upp innan NATO og yfirstjórn neyðaraðgerða hefur verið virkjuð til starfa allan sólarhringinn í Danmörku.
Myndin er tekin á heræfingu í Belarus 15. september. Dróninn er hlaðinn handsprengjum.
Ég hef áður vakið máls á því hve óljóst er vikið að ábyrgðarkeðju íslenskra öryggismála í nýlegri skýrslu starfshóps þingmanna um inntak öryggis- og varnarmálastefnunnar.
Það má til dæmis spyrja sig hvers vegna fulltrúi utanríkisráðuneytisins hafi verið kallaður í Kastljós miðvikudaginn 24. september til að ræða viðbúnað við hugsanlegri drónaárás á Ísland. Utanríkisráðuneytið hefur ekki umboð til að stjórna neinum aðgerðum vegna slíks atviks.
Pólitíska ábyrgðin í þessu efni hvílir á herðum dómsmálaráðherra og stofnana á vegum dómsmálaráðuneytisins: embætti ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslu og almannavarnakerfinu. Ráði utanríkisráðuneytið yfir fjármunum til varnartengdra verkefna er brýnt að þeir renni til þessara stofnana til að kaupa búnað svo fylgjast megi með ferðum dróna.
Viðbrögð þeirra sem voru fyrir svörum í Kastljósinu voru ekki traustvekjandi vegna þess að hér er meira að segja ábyrgðarkeðjan enn svo óljós í þessum málum að stjórnendur Kastljóss leita til ráðuneytis sem er hvorki viðbragðs- né aðgerðaráðuneyti heldur kemur að málum í samskiptum við aðila erlendis og hefur milligöngu vegna þeirra.
Það er óskiljanlegt að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar innan stjórnkerfisins hafi ekki verið tekið af skarið um ábyrgðarkeðjuna. Nýja starfshópsskýrslan bendir eindregið til þess að tregðan sé innan utanríkisráðuneytisins. Þar er seilst til verkefna og fjármuna sem eiga lögum samkvæmt heima hjá öðrum. Það er rétt að byrja á byrjuninni í þessum málum og átta sig á lögbundinni ábyrgð.