19.7.2022 9:31

Vandi Sigmundar Ernis

Sigmundur Ernir hefur að öðru tilefni hvatt til þess að rætt sé í þaula á opinberum vettvangi komi þar fram fullyrðingar um „ritstuld“.

Á dögunum sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor á Facebook 11. júlí sl. að það væri furðulegt, að Helgi Magnússon, eigandi Fréttablaðsins, skyldi fyrirskipa brottrekstur Kolbrúnar Bergþórsdóttur af blaðinu. Hún verið eini sendibréfsfæri blaðamaðurinn þar og „raunar mjög ritfær“.

Ólafur Arnarson, álitsgjafi Fréttablaðsins, tók þessum ummælum Hannesar Hólmsteins illa í pistli í blaðinu laugardaginn 16. júlí og bar rangar sakir á prófessorinn eins og rakið var hér þann sama dag. Taldi Ólafur að vissulega væri áfram ritfært fólk á Fréttablaðinu og sagði að þar hefði enginn „orðið uppvís að því reyna að stilla fram hugverkum annarra sem sínum eigin“.

Þennan sama laugardag var sagt frá því í Morgunblaðinu að í 2. hefti af Heima er bezt sem kom út fyrir nokkru sé að finna endurbirta blaðagrein frá 1983 eftir Sigmund Erni Rúnarsson (SER), ritstjóra Fréttablaðsins. Í grein SER endurbirtir hann texta Tómasar Guðmundssonar skálds um Kristján fjallaskáld sem sinn eigin þar sem engra heimilda er getið. Ritstjórinn fellur einmitt beint í þá gryfju að „stilla fram“ hugverki Tómasar sem sínu í eigin.

021_1658223013184SER birtir í dag (19. júlí) þessa „athugasemd frá ritstjóra“ í Fréttablaðinu:

„Morgunblaðið flaggar um 40 ára blaðagrein minni á forsíðu um helgina þar sem ekki verður betur séð en að blaðið væni undirritaðan um að eigna sér ritverk annarra. Blaðið leggur sig fram um að segja ekki hvers eðlis umrædd grein er. Í lok hennar stendur skýrum stöfum að um samantekt sé að ræða, sem merkir að textabrotin eru ættuð héðan og þaðan. Undirritaður hefur upplifað ýmislegt á ríflega 40 ára fjölmiðlaferli, en man vart eftir annarri eins fréttaþurrð og þessi skrif endurspegla.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.“

Þess er látið ógetið í athugasemdinni að frétt Morgunblaðsins um textagerð SER er birt núna þar sem starfsmaður SER á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, Sigurjón Magnús Egilsson, endurbirti næstum 40 ára gamla greinina í tímaritinu Heima er bezt fyrir skömmu.

Sigurjón Magnús, ritstjóri tímaritsins, er varla í svo miklum kröggum með efni að nauðir reki hann til slíkrar endurbirtingar. Hann hlýtur að velja greinina þar sem hún er honum minnisstæð vegna ritleikni höfundarins. Þegar SER reynir að afsaka orðrétta endurbirtingu á texta annars manns án heimildar með því að grein hans sé „samantekt“ og því samtíningur gerir hann einkum lítið úr mati Sigurjóns Magnúsar á bitastæðu efni. Hvergi stendur að með því að nota orðið „samantekt“ geti höfundar nýtt sér verk annarra sem sín eigin.

Sigmundur Ernir hefur að öðru tilefni hvatt til þess að rætt sé í þaula á opinberum vettvangi komi þar fram fullyrðingar um „ritstuld“. Nú þegar það orð er nefnt í tengslum við vinnubrögð hans sjálfs vegna birtingar á texta sem talinn var eftir hann en er ritaður af öðrum fer ritstjórinn undan í flæmingi og telur frásögn af ný-endurbirtri grein til marks um „fréttaþurrð“.

Þegar upp er staðið situr Sigmundur Ernir uppi með að hafa rekið Kolbrúnu Bergþórsdóttur og með að hafa Ólaf Arnarson áfram sem álitsgjafa þótt hann skrifi grein ritstjóranum Sigmundi Erni til mikillar háðungar.