Vandi barnamálaráðherra
Guðmundur Ingi lét sér nægja að endurtaka í sífellu væntingar sínar vegna Gunnarsholts þótt fyrirspurnir þingmannanna sneru einkum að afstöðu hans til að úrræða væri leitað erlendis.
Það er dapurlegt að kynna sér orðaskiptin sem fram fóru á alþingi í gær (20. október) milli þingmannanna Ingibjargar Isaksen Framsóknarflokki og Jóns Péturs Zimsen Sjálfstæðisflokki annars vegar og Guðmundar Inga Kristinssonar mennta- og barnamálaráðherra, varaformanns Flokks fólksins, hins vegar.
Þetta var dapurlegt vegna efnisins en þingmennirnir spurðu ráðherrann hvaða skoðun hann hefði á leiðum til að bæta hag barna með fjölþættan vanda. Þar ríkir svo mikið úrræðaleysi að foreldrar leita til meðferðarheimilis í Suður-Afríku til bjargar börnum sínum. Dapurlegast er þó að lesa svör ráðherrans við fyrirspurnum þingmannanna.
Þingmennirnir: Ingibjörg Ísaksen, Guðmundur Ingi Kristinsson og Jón Pétur Zimsen (samsett mynd: mbl.is).
Fyrir tæpu ári, áður en kosið var til alþingis, birtist tilkynning á vef stjórnarráðsins um að opna ætti meðferðarheimili í Gunnarsholti á Rangárvöllum fyrir sex drengi, 14 til 18 ára. Um væri að ræða unglinga sem glímdu við alvarlegan vanda á borð við vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrot, skóla- og námserfiðleika eða sálfélagslegan vanda. Væri litið á þetta sem lokaúrræði. Var ákvörðun um nýtingu húsnæðisins í Gunnarsholti tekin vegna þess að loka varð ónothæfu húsnæði meðferðarheimilisins Lækjarbakka í nágrenni Hellu á Rangárvöllum.
Svör ráðherrans við óundirbúnum fyrirspurnum þingmannanna gáfu til kynna að hann væri með allan hugann við að meðferðarstarf hæfist innan skamms í Gunnarsholti. Taldi hann að þar yrði rými fyrir átta drengi og sagði:
„Eins og staðan er í dag tel ég að við eigum að einbeita okkur að því að klára Gunnarsholt. Það er forgangsverkefni vegna þess að við erum jafnvel að skoða hvort við getum tekið hluta af því fyrr í notkun ef á þarf að halda. [...] Ef við höldum þetta út og náum Gunnarsholti inn þá erum við tiltölulega komin á þann stað að við getum virkilega farið að taka á þessum málum.“
Ráðherrann sagði einnig: „Það er númer eitt, tvö og þrjú að koma á starfsemi í Gunnarsholti og það er á lokametrunum. Við erum að tala um bara innan við einn, tvo mánuði. Það er það sem við erum að gera. [...] Eins og ég segi: Við erum að ná Gunnarsholti, þar sem við getum tekið við átta drengjum í langtímaúrræði, inn innan tveggja mánaða.“
Hér skal ekki gert lítið úr þeim ávinningi sem fæst með því að heimilið sem var á Lækjarbakka flytjist í viðunandi húsnæði í Gunnarsholti og vonandi verður heimilið þar opnað sem fyrst.
Það sem við blasir hins vegar er að ráðherrann hefur ekki beitt sér fyrir neinu nýju þótt allir sjái að ástandið í þessum málum er með öllu óviðunandi. Guðmundur Ingi lét sér nægja að endurtaka í sífellu væntingar sínar vegna Gunnarsholts þótt fyrirspurnir þingmannanna sneru einkum að afstöðu hans til að úrræða væri leitað erlendis. Hvort ekki ætti að viðurkenna slík úrræði.
Guðmundi Inga Kristinssyni er örugglega margt betur gefið en að bera ábyrgð á mennta- og barnamálaráðuneytinu jafnvel þótt hann hafi fengið Ágúst Ólaf Ágústsson, fyrrv. varaformann Samfylkingarinnar, sér til aðstoðar. Flokkur fólksins og ríkisstjórnin öll myndi styrkjast við að fela Guðmundi Inga pólitískt ábyrgðarstarf sem félli betur að hæfileikum hans.