Vandasamt að efna til Þingvallahátíða
Viðbrögð gagnrýnenda eru þó á sömu lund. Hátíðin árið 2000 var meðal annars töluð niður til að hallmæla kirkju og kristni.
Umræðurnar um Þingvallafund alþingis 18. júlí minna nokkuð á það sem gerðist eftir kristnihátíðina á Þingvöllum árið 2000. Fóru margir hamförum vegna hennar í fjölmiðlum og fundu henni allt til foráttu eins og sjá má af pistli hér á síðunni frá sunnudeginum 9. júlí 2000:
„Stundum kemur í hugann, að sumt, sem gerist sé svo stórbrotið, að ekki sé á allra færi að skynja það og viðbrögðin verði þá á þann veg að reyna að smækka atburðinn og gera sem minnst úr honum. Þessi hugsun læðist að mér, þegar ég les margt af því, sem skrifað er neikvætt um kristnihátíðina á Þingvöllum. Er undarlegt að sjá dagfarsprúða menn taka dýfur af hneykslan yfir hátíðinni. Hitt kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að menn reyni að draga að sér athygli og umtal á kostnað hátíðarinnar og þá helst með því að hallmæla henni, þegar fjöldinn, sem sótti hana var minni, en margir væntu.
Morgunblaðið gerði hátíðinni einstaklega góð og almennt jákvæð skil í sérstöku blaði þriðjudaginn 4. júlí. Þar endurpeglaðist sú góða tilfinning, sem ég hafði, eftir að hafa tekið þátt í hátíðinni þá tvo daga, sem hún stóð. Dálkahöfundar blaðsins hafa hins vegar almennt hallmælt því, sem gerðist á Þingvöllum og draga af því stórar ályktanir, að ekki skyldu fleiri hafa komið á hátíðina. Sér Morgunblaðið ástæðu til að setja ofan í við þá í forystugrein í dag, sunnudaginn 9. júlí. Er óvenjulegt, að ritstjórar blaðsins taki þannig opinberlega í lurginn á þeim, sem hafa atvinnu af því að skrifa í blaðið.“
Ólíku er saman að jafna tveggja daga kristnihátíð með listsýningu við Öxarárfoss og mörgu öðru til hátíðabrigða og tveggja tíma þingfundi við Lögberg um miðjan virkan dag til að minna á aðild þingmanna Íslendinga og Dana að gerð sambandssamningsins.
Hörður Áskelsson stjórnaði Schola cantorum sem söng nokkur lög við hátíðarfund alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018.
Viðbrögð gagnrýnenda eru þó á sömu lund. Hátíðin árið 2000 var meðal annars töluð niður til að hallmæla kirkju og kristni. Hátíðin nú verður mönnum að vísu ekki endilega tilefni til að hallmæla sambandslögunum heldur til að gagnrýna alþingi, ríkisstjórnina og stjórnmálamenn almennt.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sem birtist í dag (21. júlí) hefst á þessum orðum:
„Það er nokkurt afrek að láta aldarafmæli fullveldis þjóðar líða hjá án þess að nokkrum þyki mikið til koma. Meira að segja þingfundur á helgistaðnum hefði horfið með öllu ef sprell nokkurra þingmanna hefði ekki komið til. Sprellið virðist að vísu hafa verið reist á misskilningi.“
Sé litið fram á veginn má vænta þess að næsta stórafmælis verði minnst á Þingvöllum árið 2030. Þá verður alþingi 1100 ára og 100 ár frá hátíðinni miklu á Þingvöllum 1930 sem jók Íslendingum sjálfstraust á leiðinni til sjálfstæðis. – Fjöldi erlendra gesta flutti ávörp árið 1930 og Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum styttuna af Leifi Eiríkssyni þar sem þeir staðfesta hann var Íslendingur!