29.7.2024 10:43

Vance til vandræða fyrir Trump

Taldi Heilbrunn að Vance ætti að kynna sér hvernig Richard Nixon brást við gagnrýni á sig eftir að Dwight D. Eisenhower valdi hann sem varaforsetaefni sitt árið 1952.

Jacob Heilbrunn er ritstjóri The National Interest sem er áhrifamikil vefsíða í Bandaríkjunum, reist er á grunni tímarits um öryggis- og utanríkismál sem stofnað var 1985.

Í lok liðinnar viku fjallaði Heilbrunn um vandræðin sem steðja að J. D. Vance varaforsetaefni Donalds Trumps og gaf til kynna að ef til vill yrði Trump að losa sig við hann og velja nýtt varaforsetaefni.

Screenshot-2024-07-29-at-10.40.01J. D. Vance, varaforsetaefni Trumps.

Taldi Heilbrunn að Vance ætti að kynna sér hvernig Richard Nixon brást við gagnrýni á sig eftir að Dwight D. Eisenhower valdi hann sem varaforsetaefni sitt árið 1952.

Nixon var 39 ára eins og Vance er núna og varð fyrir miklum árásum skömmu eftir tilnefninguna og voru háværar kröfur um að Eisenhower ýtti honum til hliðar. Þegar öll sund virtust lokuð greip Nixon til þess ráðs að flytja sjónvarpsræðu sem bjargaði pólitískum frama hans. Er þessi fræga ræða kennd við Checkers.

Blaðið The New York Post sakaði Nixon árið 1952 um að ráða yfir leynilegum „eyðslusjóði“ sem nyti fjár frá „milljóneraklúbbi“ í Kaliforníu. Þótt leynilegur stuðningur við frambjóðendur væri ekki ólögmætur varð Nixon fyrir grimmilegum árásum og margir fjölmiðlar kröfðust þess að hann segði sig frá framboði sínu. Þegar Eisenhower var að því kominn að velja annað varaforsetaefni kom Nixon sér fyrir við ræðupúlt í tómu El Captain leikhúsinu í Los Angeles og ávarpaði þjóðina í sjónvarpi.

Hann minnti á fátæklegan uppruna sinn, hann hefði aðeins notað sjóðinn til að kosta kosningabaráttuna, kona sín Pat ætti ekki „minkapels“ en hún ætti virðulega kápu í anda repúblikana. Þá nefndi hann einnig að einn stuðningsmanna sinna hefði sent honum cocker spaniel hund sem héti Checkers og hvað sem hver segði „ætlum við að eiga hann,“ sagði Nixon sem brotnaði saman og grét að lokinni ræðunni.

Heilbrunn segir að Eisenhower hafi verið nóg boðið þegar hann hlýddi á væmna raunasögu Nixons en jafnframt séð að Nixon hefði afvopnað sig.

Heilbrunn segir að Vance verði að grípa til svipaðs ráðs og Nixon til að koma í veg fyrir að verða kastað fyrir róða. Hann sé fastur í gömlum ummælum sínum um að konur eigi að þola ofbeldishjúskap, að banna eigi þungunarrof um öll Bandaríkin og að konur sem eignist ekki börn séu „barnlausar kattarkonur“. Síðan Heilbrunn birti grein sína hefur The New York Times birt tölvubréf frá gömlum skólafélaga Vance sem sýnir hvernig hann hefur kúvent í afstöðu sinni til Trumps og trans fólks frá því að Trump tróð fyrst upp.

Demókratar nota nú í vaxandi mæli orðið weird eða weird people þegar þeir tala um Trump eða þá báða Trump og Vance. Þeir séu ókennilegir, dularfullir eða stórskrýtnir.

Trump brást við þessu nú um helgina með því að segja að hann hefði ekkert breyst, kannski frekar versnað. Vance hefur breyst að því leyti að hann flytur allt annan boðskap núna, t.d. um Trump en hann gerði fyrir átta árum.

Það er spurning hvort Vance geti afvopnað Trump á sama hátt og Nixon afvopnaði hershöfðingjann Eisenhower.