11.8.2024 10:16

Vance til vandræða

Samhliða fréttum af óvinsældum Vance beinist athygli að því hve Trump er seinheppinn við val á samstarfsmönnum eða embættismönnum þegar hann var forseti.

Kamala Harris mælist nú með meira fylgi í könnunum en Donald Trump og hún hefur bætt stöðu sína eftir að hún valdi Tim Walz sem meðframbjóðanda sinn í baráttunni um Hvíta húsið. Þau hafa verið á fimm daga ferðalagi og rætt við kjósendur í ríkjunum þar sem talið hefur verið að úrslitin kunni að ráðast þegar næsti Bandaríkjaforseti verður kjörinn.

Fjölmenni hefur sótt fundina og sagt er að þar ríki gleði og fögnuður, jafnvel léttir eftir að aldurhniginn Joe Biden dró sig í hlé.

Orðið reiði er hins vegar notað þegar lýst er andrúmsloftinu á fundum Donalds Trumps. Trump fer hamförum og sparar ekki stóru orðin um leið og hann segir sögur af sjálfum sér sem eiga enga stoð í veruleikanum. Þá er það talið skýrast æ betur dag frá degi að það voru mistök hjá Trump að velja JD Vance sem meðframbjóðanda sinn og varaforsetaefni. Walz komst í fréttir áður en Harris valdi hann með því að lýsa Trump og Vance sem skrýtnum (e. weird) vegna framgöngu þeirra og málflutnings.

Screenshot-2024-08-11-at-10.15.33JD Vance

Nú beinist athyglin til dæmis að því að nýlega hélt Vance kosningafund í Fíladelfíu sem um 200 manns sóttu. Þaðan flaug hann með fylgdarliði til Wisconsin þar sem fáir komu á fund hans, svo fáir að repúblikaninn Liz Cheney, gagnrýnandi Trumps, hæddist að Vance fyrir áhugaleysið á honum.

Vance birti mynd af sér og nokkrum samstarfsmönnum á flugvellinum og Cheney skrifaði:

„Svo virðist sem Vance hafi boðið öllum áheyrendum sínum með sér út á flugvöll.“

Framkoma hans á vellinum þótti undarleg þegar hann gekk með nokkrum öðrum að flugvél Kamölu Harris, Air Force Two, sem var á þessu sama flughlaði. Vance sagði að hann ætlaði að leggja nokkrar spurningar fyrir Harris en hún var ekki á vellinum, segir miðillinn The Hill.

Þá gagnrýndi hann Harris fyrir að svara ekki spurningum fjölmiðlamanna og sagðist vilja skoða flugvélina „sem vonandi verður til afnota fyrir mig eftir nokkra mánuði“.

Þegar fjölmiðlamenn furðuðu sig á þessu uppátæki sagði fjölmiðlafulltrúi Trumps að Vance hefði bara viljað fullvissa sig um að „Air Force Two [væri] vandlega þrifin“ og hann bætti við: „Guð einn veit hvað Kamala Harris og hennar fólk gera þarna. Bara lyktin um borð hlýtur að vera hroðaleg.“

Vance hefur fylgt þeim Harris og Walz eftir að kosningaferðalagi þeirra, þau fengu 14.000 á fund í Fíladelfíu, 12.000 í Wisconsin og 15.000 í Detroit. AFP-fréttastofan segir að eftir þessa fundi geti Trump ekki lengur montað sig af því að halda fjölmennustu kosningafundina.

Samhliða fréttum af óvinsældum Vance beinist athygli að því hve Trump er seinheppinn við val á samstarfsmönnum eða embættismönnum þegar hann var forseti. Þá er rifjað upp að Sarah Palin, sem repúblikaninn John McCain valdi sem varaforsetaefni sitt, hafi ráðið miklu að hann náði ekki kjöri.

Það kæmi ekki á óvart að reiði Trumps beindist ekki aðeins að Kamölu Harris heldur einnig JD Vance og að hann yrði jafnvel settur á kaldan klaka.