3.9.2022 10:41

„Váleg tíðindi“ segir VG í Reykjavík

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í borgarráði bókaði að sex mánaða uppgjör borgarinnar nú væri boðberi „válegra tíðinda“.

Morgunblaðið birtir frétt í dag (3. sept.) um að Reykjavíkurborg hafi verið rekin með 8.893 milljón króna halla fyrstu sex mánuði ársins 2022. Í tilefni af því hafi meirihlutinn bókað í borgarráði 1. september: „Mikilvægt er að bregðast strax við og vinna að því að stöðva hallarekstur borgarinnar og mun fjármálahópur borgarinnar vinna að því.“

GIQ17UFOJ.1_1292705Borgarfulltrúar Viðreisnar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata myndar meirihluta í borgarstjórn og ber ábyrgð á válegri stöðu í fjármálum Reykjavíkur (mynd: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon).

Í fréttinni er bent á að þetta sé talsvert annar tónn en í bókun meirihlutaflokkanna í apríl sl. um mánuði fyrir borgarstjórnarkosningar. Þá var rekstrarniðurstaða ársins 2021 kynnt með þessum orðum „Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður.“

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í borgarráði bókaði að sex mánaða uppgjör borgarinnar nú væri boðberi „válegra tíðinda“ fyrir borgarbúa og starfsmenn borgarinnar.

Sjálfstæðismenn vöktu athygli á þeirri staðreynd að samstæðuskuldir borgarinnar næmu nú 420 milljörðum króna og hækkuðu þær um 13 milljarða fyrstu sex mánuði ársins eða um rúma tvo milljarða á mánuði.

Núverandi borgarsjóri ræðir ekki „váleg tíðindi“. Blásið er á viðvaranir vegna skuldasöfnunar. Skuldadagurinn og uppgjörið er vandamál annarra.