2.11.2019 11:57

Valdníðsla á Vinnslustöðinni

Fréttahaukar ríkisútvarpsins ganga skiljanlega ekki á eftir píratanum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, með spurningum um rannsókn þingmanna í tilefni af birtingu þessara nýju gagna.

Stjórnarhættir í Seðlabanka Íslands í tíð Más Guðmundssonar sem seðlabankastjóra eru þess eðlis að hann taldi skjöl um þá ekki þola dagsins ljós. Fyrir bragðið skapaðist tortryggni í garð bankans sem leiddi aðeins til forherðingar þar.

Þegar fjármagnshöft voru innleidd hér síðla árs 2008 var ekki aðeins rætt um að þau ættu að gilda í skamman tíma heldur einnig að ekki ætti að koma upp einhverju opinberu bákni til að framfylgja þeim. Var ákveðið að fela Seðlabanka Íslands, virtri stofnun, framkvæmdina. Höftin giltu í einni eða annarri mynd í um áratug og seðlabankinn missteig sig svo við framkvæmd þeirra að stofnunin er ekki lengur litin sömu augum og áður.

987137 

Til marks um hnignun seðlabankans undir stjórn Más Guðmundssonar má benda á grein sem Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf. Í Vestmannaeyjum, birtir í Morgunblaðinu í dag (2. nóvember). Hann fjallar þar um samvinnu starfsmanna seðlabankans og fréttastofu ríkisútvarpsins undir merkjum Kastljóss gegn útgerðarfyrirtækjunum Samherja og Vinnslustöðinni og segir:

„Atburðarásin sem hér er lýst er hvorki atriði úr bíómynd né skálduð lýsing á stjórnarháttum í einhverju bananalýðveldi sem Íslendingar kenna sig helst ekki við. Þetta er birtingarmynd samsæris og spillingar með sjálft Ríkisútvarpið og sjálfan Seðlabankann í aðalhlutverkum, væntanlega með vitneskju og velþóknun forystumanna ríkisstjórnar landsins á sínum tíma [2012, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði stórútgerðum stríð á hendur].

Sérlega áhugavert er að formaður Blaðamannafélagsins skuli nú veita framferði Kastljóss heilbrigðisvottorð sem nauðsynlegu „aðhaldshlutverki“ og „heimildarvernd“ til að sinna skyldum sínum sem fjölmiðli í lýðræðissamfélagi. Helgar þá tilgangurinn meðalið? Hvernig gagnast það lýðræði að Kastljós beri á borð dylgjur og ósannindi um lögbrot fyrirtækja og láti þar við sitja?“

Núverandi útvarpsstjóri var í gær skipaður þjóðleikhússtjóri. Verði röggsamur einstaklingur skipaður yfir ríkisútvarpið grípur hann vonandi til sama ráðs og nýr seðlabankastjóri: Loftar út og gefur landsmönnum færi á að kynnast bakhlið mála hjá þessu ríkisfyrirtæki.

Í lok greinar sinnar segir Sigurgeir B. Kristgeirsson:

„Við getum þrátt fyrir allt prísað okkur sæl yfir því að lögregla og dómstólar stóðu í lappirnar. Þökk sé líka forsætisráðherra og nýjum seðlabankastjóra fyrir að láta ekki fyrri seðlabankastjóra komast upp með að leyna upplýsingum um skandalinn. Sérstaklega ber að þakka að jafnframt því sem forsætisráðherra vísaði málinu til lögreglu voru opinberuð skjöl sem staðfesta sameiginlega og grófa misbeitingu valds í Efstaleiti og við Kalkofnsveg.“

Hér er fjallað um opinbera valdníðslu gegn stórfyrirtækjum sem stjórnvöld litu hornauga. Í hugann koma frásagnir af stjórnarháttum Vladimirs Pútins og klíku hans í Rússlandi. Fréttahaukar ríkisútvarpsins ganga skiljanlega ekki á eftir píratanum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, með spurningum um rannsókn þingmanna í tilefni af birtingu þessara nýju gagna.