11.8.2023 11:04

Valdboð borgarstjórnar

Tilhneiging til að stjórna með valdboði birtist í ýmsum myndum og hvað skýrust verður hún þegar valdsmenn láta eins og almenningur eigi að laga sig að þeirra geðþótta

Sumarleyfi eru almennt að baki og menn búa sig undir það sem við tekur. Sveitarfélögum hefur gefist tóm til að standa að framkvæmdum í skólum og skipuleggja annað til að búa í haginn fyrir íbúa sína með endurbótum á þjónustu. Af fréttum má ráða að ekki hafi allt gengið eins og að var stefnt á vegum Reykjavíkurborgar.

1431772Dagur B. Eggertsson borgarstjóri (samsettmynd mbl.is).

(1) Óvissa hefur ríkt um lyktir framkvæmda við Hagaskóla í Reykjavík. Að að kvöldi 10. ágúst sendi Ómar Örn Magnússon skólastjóri foreldrum barna í skólanum tölvubréf um að skólasetning yrði 28. ágúst í stað 21. ágúst. Framkvæmdir vegna myglu hafa tafist. Hvernig skólahaldi verður háttað er enn ekki að fullu ljóst.

(2) Unnið hefur verið að því að endurskipuleggja sorphirðu í Reykjavík og færa flokkun sorps meira en áður heim til notenda. „Ég er orðin ansi pirruð á því að fá engin svör um hvenær sorpið verður losað úr tunnum, en ég er búin að hringja nokkrum sinnum og það liggja frá mér skilaboð hjá borginni,“ segir Kristín Jónsdóttir, íbúi í Seljahverfi við Morgunblaðins í dag (11. ágúst). Hvorki plast- né pappírstunnurnar hafi verið losaðar í sex vikur.

Rætt er við Dag B. Eggertsson borgarstjóra sem kveðst„ almennt ánægður með innleiðingu nýja flokkunarkerfisins“. Röð bilana á sorphirðutækjum hefði orðið til þess að sorp hefði safnast upp í borginni á undanförnum vikum.

Bilun á tækjum í sex vikur?

(3) Í leiðara Morgunblaðsins í dag er rætt um aðför meirihluta borgarstjórnar að fjölskyldubílnum og nokkur dæmi nefnd um hvernig að þessu vinsæla farartæki er þrengt. Nýjasta dæmið sé af gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar.

Þar á að fjarlægja akrein. Mótmæli eru að engu höfð. Forráðamenn fyrirtækja segja loforð borgaryfirvalda um samráð svikin þau hafi þvert á móti anað áfram. Forstjóri Húsasmiðjunnar, stórfyrirtækis við gatnamótin telur að Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og verðandi borgarsjóri, hafi gengið á bak orða sinna.

Hér eru tveir forystumenn meirihluta borgarstjórnar nefndir til sögunnar og dæmin benda bæði til þess að þeir lifi í eigin heimi og láti sig í raun engu varða það sem einstaklingar eða forráðamenn fyrirtækja segja. Þarna ríkir með öðrum orðum viðhorfið „við einir vitum“. Það birtist einnig í því sem hér var rætt í gær þegar Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi telur sig vita að nauðsynlegt sé að auka „félagslegan fjölbreytileika“ í Efra-Breiðholti og nota til þess grænt óbyggt svæði hvað sem skoðunum íbúa í hverfinu líður.

Tilhneiging til að stjórna með valdboði birtist í ýmsum myndum og hvað skýrust verður hún þegar valdsmenn láta eins og almenningur eigi að laga sig að þeirra geðþótta. Svigrúm borgaranna til orðs og athafna mótist af vilja valdhafa sem segjast hlusta en heyra ekkert. Grípa til leikbragða eins og á fundinum um dagvistunarmál í íbúaráði Laugardals 12. júní 2023.