26.10.2020 9:47

Valdarán vegna nýrrar stjórnarskrár

Þarna eru dregnar nýjar átakalínur í stjórnarskrármálinu. Talsmaður nýju stjórnarskrárinnar mælir fyrir valdaráni.

Katrín Oddsdóttir, þáv. laganemi, núv. lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, flutti ræðu á Austurvelli í hrunástandinu 22. nóvember 2008. Í tilefni af ræðunni birtu samnemendur Katrínar í Háskólanum í Reykjavík þessa yfirlýsingu:

„Við, nemendur Háskólans í Reykjavík, skorum hér með á Háskólann í Reykjavík að fjarlægja ræðu Katrínar Oddsdóttur af heimasíðu Háskólans í Reykjavík. Lagarök í ræðu Katrínar sem flutt var 22. nóvember sl. eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og langt frá því að vera í nokkru samræmi við það sem kennt er við skólann. Mikilvægt er svo laganámið og þá sérstaklega kennsla í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík haldi trúverðugleika sínum sem ,,metnaðarfullt og nútímalegt laganám" að skólinn fjarlægi frétt um ræðuhöld hennar af heimasíðu skólans. Að sama skapi finnst okkur með öllu óásættanlegt að Háskólinn í Reykjavík stæri sig af, á forsíðu heimasíðu skólans, ummælum Katrínar sem hótar ofbeldi og valdaráni í ræðu sinni. En þar kemst hún að sama skapi að þeirri niðurstöðu að valdarán sé ekki brot á lögum. Teljum við það skóla okkar ekki til sóma að fjalla um ræðu hennar á heimasíðu skólans og krefjumst þess að færslan verði fjarlægð.“

8501b21b0174ebecb477b67611e5e7148bbdedca_16Sunnudaginn 25. október 2020 ræddi Kristján Kristjánsson við Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann um örlög nýju stjórnarskrárinnar í þætti sínum Sprengisandi á Bylgjunni:

Ragnar: Þess vegna verðum við að ná þessu valdi [til að setja nýja stjórnarskrá], verður að ná þessu af þinginu. Ná þessu valdi af stjórnmálamönnunum.

Kristján: Hvernig gerirðu þetta Ragnar? Hvernig nærðu þessu af þinginu vegna þess að þingið hefur náttúrulega vald og ekki bara vald heldur einnig ber ábyrgð á því og skyldur?

Ragnar: Það er tvennt sem kemur til álita. Í fyrsta lagi þá gæti þingið samþykkt breytingu í stjórnarskránni um hvernig skuli breyta henni og komið því þannig fyrir að þjóðin kjósi um stjórnarskrártillögurnar í heild sinni, en ekki í alþingiskosningum því það er vonlaus aðferð. Nú ef að það gengur ekki og þjóðin er áköf um að ná til sín þessu valdi sem hún hefur eðli málsins til þess þá verður hún að taka völdin. Það hefði kannski verið hugsanlegt eftir hrunið að fólkið hefði sent þingið og stjórnina heim og stofnað til bráðabirgðastjórnar sem hefði haft það hlutverk að búa til stjórnlagaþing og semja nýja stjórnarskrá.

[...]

Kristján: Já ég kann orðið bylting en ég ímynda mér nú ekki að það sé málið?

Ragnar: Það er valdarán, það þarf að sjálfsögðu ekki að vera neitt blóðugt.

Kristján: Þú ert sem sagt að tala um það.“

Ragnar andmælti ekki þessum orðum Kristjáns.

Þarna eru dregnar nýjar átakalínur í stjórnarskrármálinu. Talsmaður nýju stjórnarskrárinnar mælir fyrir valdaráni. Það sýnir ef til vill áhrifaleysi lögmannsins að hvergi í fjölmiðlum er sagt frá valdaránshugmyndum hans.