9.11.2025 11:15

Valdabrölt utanríkisráðherra

Þingmenn verða að standa gegn frekari tilraunum utanríkisráðherra til að hræra í stjórnkerfinu á viðkvæmum sviðum öryggismálanna.

Umræður urðu um öryggis- og varnarmál á alþingi í liðinni viku. Þar voru fluttar tvær tillögur. Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins, kynnti (4. nóv.) tillögu sem miðar að því að fela ríkisstjórninni að fella saman öryggis- og varnarstefnu og þjóðaröryggisstefnuna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra flutti tillögu (6. nóv.) um stefnu í öryggis- og varnarmálum sem reist er á tillögum starfshóps sem ráðherrann setti á fót í mars 2025.

Upphaflega sátu fulltrúar allra þingflokka í hópnum en Ingibjörg sagði sig úr honum í júlí. Hefur hún síðan gagnrýnt það sem hún kallar landvinningarstefnu utanríkisráðuneytisins innan stjórnkerfisins, það er þá áráttu að tala þannig um öryggis- og varnarmál að færa verði stofnanir annarra ráðuneyta undir ráðuneyti utanríkismála.

Í lok ræðu sinnar lagði Ingibjörg til að tillaga sín færi ekki aðeins til meðferðar í utanríkismálanefnd þingsins heldur einnig í allsherjar- og menntamálanefnd sem fjallar um mál á verksviði dómsmálaráðuneytis.

1572686Víðir Reynisson (mynd: mbl.is).

Þingmaður Samfylkingarinnar, Víðir Reynisson, hefur mesta reynslu þingmanna og utan alþingis af störfum á sviði öryggis- og almannavarna og er nú formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Hann tók til máls um tillögu Ingibjargar.

Í ræðu sinni minnti Víðir á að stefnumótun á því sviði sem sneri að öryggi þjóðarinnar væri margþætt. Hann sagði:

„Það er auðvitað þjóðaröryggisstefnan ein. Það er stefna okkar í almannavarnamálum, sem áður hét stefna í almannavörnum og öryggismálum. Það er tilvonandi stefna okkar í í varnartengdum málum. Það er löggæsluáætlun, það er landamæraáætlun og landhelgisgæsluáætlun. Það er samgönguáætlunin, það er áætlunin um öryggi í fjarskiptum og raforku, heilbrigðisáætlun. Allt þetta fyrir mér tengist svolítið saman til þess að maður geti horft á það sem einhvers konar öryggisáttavitann sinn. Reyna að átta sig á því með allt samfélagið undir.“

Með vísan til þessa fagnaði Víðir „algjörlega þessari tillögu [Ingibjargar]“. Í henni fælist „Að við röðum saman púslum til þess að búa til öruggt samfélag.“

Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði og þess vegna er það til þess fallið að vekja tortryggni og spilla fyrir umræðum um hlut utanríkisráðuneytisins í þessu púsli þegar hengt er við tillögur utanríkisráðherra um varnar- og öryggismál hugmyndum innan utanríkisráðuneytisins um einhverja „einingu“ innan þess í því skyni að ráðuneytið fari inn á verksvið sem heyra lögum samkvæmt undir önnur ráðuneyti og stofnanir þeirra.

Utanríkisráðherra sagði réttilega í ræðu 6. nóvember að styrkja þyrfti borgaralegan viðbúnað og getu, ekki síst getu innlendra viðbragðsaðila, embættis ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslunnar og CERT-IS netöryggissveitarinnar.

Á vorþinginu var samþykkt að CERT-IS yrði hluti af utanríkisráðuneytinu. Það var feilspor af hálfu alþingis að samþykkja þá breytingu á eðlilegri verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Þingmenn verða að standa gegn frekari tilraunum utanríkisráðherra til að hræra í stjórnkerfinu á viðkvæmum sviðum öryggismálanna.