Valdabarátta innan RÚV
Völd Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og trúverðugleiki eru í húfi vegna ágreinings um hver ákveður þátttöku í söngvakeppninni.
Undarlegt er að fylgjast með því hvernig ráðherrar og yfirstjórn ríkisútvarpsins (RÚV) fara í hringi vegna ákvörðunar um þátttöku Íslands í Eurovision, söngvakeppni á vegum evrópskra sjónvarpsstöðva. Völd Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og trúverðugleiki eru í húfi vegna ágreinings um hver ákveður þátttöku í söngvakeppninni.
Á evrópskum stjórnarvettvangi keppninnar (EBU) var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða fimmtudaginn 4. desember að breyta tilhögun við val á sigurlagi í keppninni. Ísraelar verða áfram þátttakendur í keppninni.
Þessi niðurstaða varð til þess að fulltrúar Hollands, Spánar, Írlands og Slóveníu tilkynntu að þeir tækju ekki lengur þátt í keppninni.
Í fréttum af þessum mótmælum er bent á að þau séu pólitísk í eðli sínu og nú sé þess beðið hvað Belgar og Íslendingar geri, þeir velti málinu enn fyrir sér.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri (skjámynd).
Í janúar 2024 sat yfirstjórn RÚV undir miklum þrýstingi gegn þátttöku Ísraels,
Á ruv.is var 24. janúar 2024 sagt frá viðtali við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Þar var hann spurður hvers vegna RÚV hefði ekki tekið formlega ákvörðun um að að taka ekki þátt í Eurovision. Stefán svaraði að RÚV gæti ekki ákveðið það upp á sitt eindæmi, það væri af „utanríkispólitískum ástæðum“. Og útvarpsstjórinn sagði: „Það er alþingi og ríkisstjórnin sem mótar okkar utanríkisstefnu. Stjórnvöld hafa ekki tekið slíka ákvörðun hér og sjónvarpsstöðvarnar á Norðurlöndunum eru sömuleiðis ekki á þeirri línu.“
Stefán Eiríksson áréttaði þessa skoðun í Kastljósi 22. apríl 2025 og sagði:
„Það eru stjórnvöld í hverju landi, það eru þing í hverju landi sem taka afstöðu til slíkra mála. [...] Það er rétti vettvangurinn til að taka slíkar ákvarðanir. Eftir þeim línum sem að stjórnvöld leggja förum við eins og aðrir.“
Lilja D. Alfreðsdóttir var menningarráðherra í janúar 2024. Hún sagði þá að ákvörðun um að sniðganga Eurovision fæli „auðvitað [í sér] skýr skilaboð um ákveðna stefnu og ég tel að það sé utanríkisráðherra sem kemur inn í það mál.“
Nú hafa öll ríkisútvörpin annars staðar á Norðurlöndum ákveðið að halda áfram þátttöku í söngvakeppninni. Frá stjórnendum í Austurríki sem skipuleggja keppnina næsta vor berast boð um að andstaða við þátttöku í henni beri með sér óvild ef ekki hatur í garð gyðinga. Sama sjónarmið einkennir afstöðu Þjóðverja.
Í dag (5. des.) var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra á blaðamannafundi í Berlín með þýska utanríkisráðherranum. Á ruv.is birtist þessi frásögn af fundinum:
„Varðandi þátttöku Ísrael í Eurovision sagðist hún vilja ræða það við Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, þegar hún kæmi aftur til Íslands.„Einhverjir myndu segja að þetta væri í höndum RÚV,“ sagði hún og undirstrikaði að hún myndi fyrst vilja eiga þær viðræður áður en hún segði eitthvað um málið í erlendum fjölmiðlum.“
Þessir „einhverjir“ sem segja ákvörðun um þetta í höndum RÚV eru þeir sem standa með Stefáni Jóni Hafstein, stjórnarformanni RÚV. Að tillögu hans samþykkti stjórnin á dögunum með 5 atkv. gegn 4 að vísa bæri Ísraelum á brott. Hvort sami meirihluti vill nú að RÚV efni ekki til söngvakeppni innan reglna EBU kemur í ljós á miðvikudaginn í næstu viku.
Stóra spurningin er þessi: Færir ríkisstjórn Íslands stjórn þessa þáttar utanríkismálanna til RÚV. Þar er ekki aðeins heiður og styrkur ríkisstjórnarinnar í húfi. Ráði stjórn RÚV niðurstöðu þessa máls er það beint vantraust á Stefán Eiríksson sem hlyti þá að „íhuga stöðu sína“ svo að vitnað sé í klassískt orðalag embættismanna á útleið.