20.1.2018 15:16

Valdaafsal stjórnmálamanna gagnrýnt

Breytingu í þá veru sem hér er lýst láta stjórnmálamenn almennt ekki yfir sig ganga. Þróunina má rekja til ákvarðana stjórnmálamanna. Þeir hafa einfaldlega afsalað sér völdum.

Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, vekur enn einu sinni máls á því í skrifum sínum í dag (20. janúar) að hér sé komið til sögunnar „embættismannaræði“. Hann segir í Morgunblaðinu: 

„Það er ekki lengur þannig að ráðherra feli embættismönnum framkvæmd mála heldur eru það embættismenn og sérfræðingar í ráðuneytum, sem stýra gerðum ráðherra, beint eða óbeint.[...] 

Löggjöf um opinber fjármál og ríkisfjármálaáætlanir þýða í raun að stefnumörkun í fjölmörgum málaflokkum er komin í hendur embættismanna og byggist á frumkvæði þeirra, ekki þingmanna eða ráðherra.“ 

Styrmir vitnar í Davíð Oddsson sem sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 13. janúar: „...valdið hefur í ógáti smám saman verið fengið öðrum, sem enga lýðræðislega ábyrgð bera, eða þeir hafa hrifsað það til sín.“ 

Styrmir vitnar einnig í Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sagði í grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 17. janúar: „Í núverandi uppsveiflu hefur nánast engin áhersla verið á aðhald eða forgangsröðun í ríkisrekstri...“ 

Styrmir telur að hér sé að verða til nomenklautura í ætt við það sem var í kommúnistaríkjunum og Milovan Djilas lýsti í frægri bók sinni Hin nýja stétt fyrir rúmum 60 árum. Grein sinni lýkur Styrmir á þessum orðum: 

„Taki lýðræðislega kjörnir fulltrúar ekki í taumana og stöðvi þessa þróun af verður til jarðvegur fyrir eins konar „uppreisn“ gegn þessu kerfi – embættismannaræðinu.“ 

Breytingu í þá veru sem hér er lýst láta stjórnmálamenn almennt ekki yfir sig ganga. Þróunina má rekja til ákvarðana stjórnmálamanna. Þeir hafa einfaldlega afsalað sér völdum. Stærsta skrefið í þá átt var stigið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eftir hrun. Endurskoðun stjórnarráðslaganna hafði að markmiði að auka embættismannavaldið. Þetta er að sjálfsögðu aldrei orðað á þennan veg heldur rætt um nauðsyn þess að hafa „fagleg“ sjónarmið að leiðarljósi. Deilurnar vegna skipunar í dómaraembætti eru ein birtingarmynd þessarar þróunar. Þar felst „fagmennskan“ í að setja upp excel-skjal og raða mönnum inn á það. Hrokinn af hálfu formanns dómnefndar í garð setts dómsmálaráðherra vegna skipunar í embætti átta héraðsdómara er sjúkdómseinkenni „fagmennskunnar“.  

Í þingnefnd fyrir aldarfjórðungi kom til ágreinings þegar ég taldi að nefndarmenn ættu að taka ákvörðun en þeir sem voru á öndverðum meiði vildu fara að vilja „fagmanna“. Að leitað sé til einkaaðila frekar en að hlaða undir opinbera kerfið er eitur í beinum vinstri manna. 

Var það svo ekki snar þáttur í skýrslu rannsóknarnefndar alþings vegna bankahrunsins að stjórnmálamenn ættu að styðjast meira við ráð embættismanna? Forystumenn í stjórnmálum líðandi stundar eru undir sterkum áhrifum eftir-hrunsáranna í stjórnkerfinu. Þagnarmúrinn vega athafna Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra hefur ekki verið rofinn. 

Einfalda skýringin á þróuninni sem Styrmir telur svona hættulega er að pendúllinn sveiflaðist einfaldlega of langt til öfgaáttar í þágu embættismannakerfisins á fyrstu árunum eftir hrun. Jafnvægi skapast ekki nema með auknu sjálfstrausti stjórnmálamanna og meiri virðingu í þeirra garð. Að segja stjórnmálamenn engu ráða en embættismenn öllu er ekki rétt – stjórnmálamennirnir verða hins vegar að hafa vilja til að ráða og sýna hann í verki.