27.1.2018 12:47

Vagnstjóri telur of í lagt með borgarlínu

Segist Brynjólfur hafa ekið strætisvagni í mörg ár og greinina skrifi hann vegna reynslu sinnar og umræðna um Strætó undanfarið vegna næturstrætó og borgarlínu.

Greinin Hugleiðingar vagnstjóra um strætó eftir Brynjólf G. Stefánsson birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. janúar. Í upphafi hennar segist Brynjólfur hafa ekið strætisvagni í mörg ár og greinina skrifi hann vegna reynslu sinnar og umræðna um Strætó undanfarið vegna næturstrætó og borgarlínu. 

Hann segist hafa ekið næturvögnum talsvert á sínum tíma og hann hafi gert það að nýju um síðustu helgi á leið 101 í Hafnarfjörð. Brynjólfur segir: 

„Farþegar voru fjölmargir, höguðu sér flestir vel en nokkrir augljóslega yngri en tvítugir. Næturstrætó er aðallega fyrir unglinga og ungt fólk. Kannski ætlar stjórn Strætó að endurvekja gamlan draug, drukkna unglinga í miðbænum um helgar? 

Með næturstrætó opnast aftur tækifæri fyrir unglinga að sækja miðbæinn á kvöldin og fara heim með strætó um nóttina. Við, vagnstjórarnir, flytjum fólk í misjöfnu ástandi í úthverfin. Það er ekki góð tilfinning að sjá villuráfandi, drukkinn ungling stíga út úr vagninum um miðja nótt í sjö stiga frosti. Það gerðist um síðustu helgi á endastöðinni á Völlunum [í Hafnarfirði].“ 

Þess er að vænta að þeir sem tóku ákvörðun um að endurvekja næturstrætó hafi íhugað til hvaða ráða skuli tekið til að koma í veg fyrir að gamalkunnugt ástand skapist vegna mannfjölda í miðborginni. Á sínum tíma stóðu borgaryfirvöld næsta ráðalaus gagnvart þessum vanda og kröfðust sífellt aukinnar viðveru lögreglunnar. 

Brynjólfur telur að almenningssamgöngur séu í raun góðar á höfuðborgarsvæðinu miðað við fjölda íbúa. Hann segir að fólk almennt noti einkabílinn og líklega breytist það ekki í ljósi hagsældar í landinu. Hann segir: 

„Er einhver þörf fyrir sérstaka borgarlínu? Umferðin gengur yfirleitt ágætlega. Það er helst á morgnana og síðdegis að umferðin þyngist og fólk verður fyrir töfum. 

Ég hef keyrt margar strætóleiðir. Á öllum þessum leiðum eru tiltölulega fáir staðir, yfirleitt gatnamót, sem tefja umferðina á háannatímum. Væri ekki betra að veita fjármunum til úrbóta á þessum stöðum og greiða fyrir allri umferð en að leggja 100 milljarða í rándýra borgarlínu? 

Ef borgaryfirvöld vilja raunverulega greiða veg Strætó í umferðinni þá er til frekar ódýr lausn: fjarstýring og forgangur á umferðarljósum. Með skynsamlegum framkvæmdum á nokkrum gatnamótum og betri stýringu á umferðarljósum væri hægt að bæta flæði umferðarinnar fyrir alla. 

Því miður er það markmið borgaryfirvalda að hefta bílaumferðina og þrengja götur, eins og dæmin sanna. Það er yfirlýst stefna sumra stjórnmálamanna að neyða fólk til notkunar almenningssamgangna. Hafa vit fyrir hinum fíflunum. Hins vegar eftir 25 ár, ef pólitíska rétttrúnaðarfólkið verður ekki búið að tortíma heiminum með visku sinni, munu umferðartafir í Reykjavík heyra sögunni til með sjálfkeyrandi bílum.“ 

Þetta sjónarmið á ekki upp á pallborðið hjá þeim ráðamönnum á höfuðborgarsvæðinu sem fara með stjórn umferðar- og skipulagsmála. Þar ræður minnisvarða-stefna, það er að þeim takist að knýja fram samþykkt við borgarlínu sem sé mun háleitari en sú tiltölulega einfalda leið sem vagnstjóri með margra ára reynslu nefnir. 

Þriðji punkturinn í grein Brynjólfs snýst um Hlemm sem breytt hefur verið í mathöll þótt þar sé áfram aðalskiptistöð Strætó. Vegna breytinganna þurfa farþegarnir „að hírast úti í kuldanum og rigningunni,“ segir Brynjólfur og bætir við: „Þeir geta reyndar fengið sér sæti á hörðum stálbekk og horft á fólk gæða sér á kræsingum í Mathöllinni meðan þeir bíða eftir að komast sinnar leiðar.“ 

Lokaorðin eru: 

„Já, upphefð Strætó er mikil hjá yfirvöldum og virðingin fyrir farþegum til fyrirmyndar. Vantar bara geltandi hunda í Strætó.“ 

Með því að leyfa gæludýr í strætisvögnunum er ætlunin að gera nýja tilraun til að fjölga farþegum.