10.5.2025 10:43

Vælustjórn þings og auglýsinga

Fréttirnar miða einkum að því að draga upp neikvæða mynd af ræðum stjórnarandstöðunnar, hún „leyfi“ sér að ræða þetta mál – og síðan er líka vælt undan auglýsingum. 

Alþingi kemur saman í dag til að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun auðlindagjalds. Frumvarpið var kynnt af tveimur ráðherrum Viðreisnar.

Viðreisn sækir minnst af fylgi sínu á landsbyggðina. Hún er dæmigerður flokkur kjósenda á höfuðborgarsvæðinu sem dreymir um að Ísland verði hluti Evrópusambandsins. Við það flyttist stjórn auðlinda og á nýtingu þeirra, á um það bil milljón ferkílómetra svæði, í hendur Brusselmanna. Íslendingar fengju forgang að fiskimiðunum í nokkur ár en síðan yrði nýtingarréttinum deilt. Spurning yrði um forgang að nýtingu auðlinda á botni landgrunnsins utan 12 mílna eða undir hafsbotninum.

Fyrir ESB-aðildarsinna í Viðreisn er það hluti af aðildarstrategíunni að veikja stór íslensk útgerðarfyrirtæki. Þá verði auðveldara að sannfæra þjóðina um að henni sé fyrir bestu að hér ráði sjávarútvegsstefna ESB. Allir sem stunda útgerð séu á opinberu framfæri, það tryggi vald Brusselmanna til að fara sínu fram.

Eftir að viðreisnarráðherrarnir kynntu veiðigjaldafrumvarpið og lögðu það fram í samráðsgátt varð uppnám í sjávarsveitarfélögum um land allt. Umsagnir forráðamanna þeirra voru á einn veg, með frumvarpinu væri grafið undan litlum og meðalstórum útgerðarfyrirtækjum í þessum byggðum.

IMG_2033

Öflug kynning á þessum sjónarmiðum í auglýsingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) varð til að opna augu almennings. Þegar atvinnuvegaráðherra Hanna Katrín Friðriksson lagði frumvarpið fram á alþingi sagði hún að við endanlega gerð þess hefði verið tekið tillit til þessara sjónarmiða, skattahækkun á þessi fyrirtæki yrði minni en upphaflega var áætlað.

Að baki Flokks fólksins standa kjósendur sem vita betur en forysta Viðreisnar hvað klukkan slær í sjávarútvegsmálum. Innan flokksins óttast margir hvað gerist í sjávarbyggðunum.

Innan Samfylkingarinnar heyrast á hinn bóginn gagnrýnisraddir úr annarri átt. Þingmenn eins og Dagur B. Eggertsson telja ekki nógu langt gengið í aðförinni að stórútgerðinni og kvótakerfinu almennt. Óhjákvæmilegt sé að brjóta það upp til að það þvælist örugglega ekki fyrir ESB-aðildinni.

Ríkisútvarpið eitt heldur úti sérstökum þingfréttaritara. Þar birtast þó engar efnislegar upplýsingar um ágreiningsmál í löngum umræðum á alþingi. Fréttirnar snúast um hrein aukaatriði eins og lengd umræðna og hvort þær raski starfsáætlun alþingis, það er stytti sumarleyfi þingmanna.

Fréttirnar miða einkum að því að draga upp neikvæða mynd af ræðum stjórnarandstöðunnar, hún „leyfi“ sér að ræða þetta mál. Forseti alþingis gengur fram fyrir skjöldu í þeirri „vælustjórnun“ og fréttastofan endurómar hana.

Vikum saman hafa stjórnarsinnar vælt undan auglýsingum SFS og gera það enn. Fréttastofa ríkisútvarpsins tekur undir það væl og segir í fréttum að þrátt fyrir auglýsingarnar sé mikill stuðningur almennings við áform ríkisstjórnarinnar. Ætli ríkisútvarpið eitt græði á þessum auglýsingum? Hefur það svo virkilega engin áhrif að nota það til að miðla þeim? Vælið og árásir á einstaklinga sem komu að gerð auglýsinganna benda til annars. Þær gefa að minnsta kosti áhangendum ríkisstjórnarinnar tilefni til að ræða annað en efni málsins.