Útspil ESB og aðild Viðreisnar
Tillöguna á ESB-þinginu má rekja til ákvörðunar 30. apríl 2025 í utanríkismálanefnd þingsins fyrir tilstilli Renew-þingflokksins, sem sameinar frjálslynda flokka í Evrópu. Viðreisn er í þeim flokkahópi.
Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður Miðflokksins vakti máls á því á alþingi fimmtudaginn 11. desember að þing Evrópusambandsins (ESB) hefði í lok nóvember samþykkt skýrslu utanríkismálanefndar þingsins um stefnu sambandsins gagnvart norðurslóðum. Þar komi fram að ESB ásælist auðlindir Íslands. Auk þess sé boðað að ESB hyggist taka virkan þátt í því með ríkisstjórn Íslands að kynna Íslendingum kosti aðildar að ESB og leggja sig fram í þágu umsóknar Íslands komi til hennar.
Ingibjörg sagði undarlegt að enginn fyrirvari væri settur varðandi virka þátttöku með ríkisstjórn Íslands í þágu ESB-aðildar fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta væri varla sagt án samtala við utanríkisráðherra Íslands. Ingibjörg spurði utanríkisráðherra:
„Hvaða samskipti og upplýsingaskipti liggja hér að baki milli ESB og utanríkisráðherra? Er þessi texti í þessari skýrslu ESB hvað Ísland varðar með samþykki utanríkisráðherra? Ef ekki, hyggst þá utanríkisráðherra ekki að gera formlega athugasemd við slíka áætlaða íhlutun af hálfu ESB? Eða hefur slíkri athugasemd þegar verið komið á framfæri?“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, brást reiðilega við þessum spurningum og sakaði Ingibjörgu um „brigsl“ og „ ásakanir um meint áhrif okkar á þessa afstöðu Evrópuþingsins“. Þær væru „auðvitað úr lausu lofti gripnar, algerlega“. Ríkisstjórnin treysti þjóðinni fyrir næsta skrefi gagnvart ESB. Ríkisstjórnin „á ekki að hlusta og ætlar ekki að hlusta á einhverja hysteríu af hálfu stjórnarandstöðunnar,“ sagði utanríkisráðherra og spurði: „Hver er glæpurinn?“
Urmas Paet, flokksbróðir Þorgerðar Katrínar á ESB-þinginu.
Þessi spurning utanríkisráðherra sýnir að hún sér ekkert athugavert við stuðningsyfirlýsingu ESB-þingsins við stefnu ríkisstjórnarinnar eða tilboðið um samstarf til að upplýsa þjóðina um kosti ESB-aðildar. Það eru skilaboð hennar í þingumræðunum hér 11. desember til Brusselmanna og ESB-þingsins.
Tillöguna á ESB-þinginu má rekja til ákvörðunar 30. apríl 2025 í utanríkismálanefnd þingsins fyrir tilstilli Renew-þingflokksins, sem sameinar frjálslynda flokka í Evrópu. Viðreisn er í þeim flokkahópi. Helsti ESB-páfi flokksins, Guy Verhofstadt, var heiðursgestur og ræðumaður á landsfundi Viðreisnar fyrir nokkrum vikum. Hann vill Bandaríki Evrópu.
Viðreisn hefur markvisst sótt stuðning og stefnumótun í flokkahóp Renew. Hópurinn hefur um árabil talað fyrir því að EES-ríkin, þar á meðal Ísland, íhugi fulla aðild að ESB.
Það er því ekkert óvænt að Renew hafi séð pólitískt tækifæri, fjórum mánuðum eftir að formaður Viðreisnar varð utanríkisráðherra Íslands, til að tengja norðurslóðamál við aðildarumræðu á Íslandi og gera ríkisstjórn Íslands að beinum samstarfsaðila í texta ályktunar sem þingmaður Renew, Urmas Paet, fylgdi í gegnum ESB-þingið. Hann er áhrifamaður innan Renew og var utanríkisráðherra Eistlands þegar ESB-aðild Íslands var á dagskrá 2009-2013.
Það er ekkert glæpsamlegt við þetta pólitíska útspil flokksvina Viðreisnar í Brussel. Spurningin er hvaða orð á að nota um undirmál Viðreisnar.