6.11.2025 10:44

Útskiptarkenningin og Snorri

Snorri Másson tekur ekki heldur undir samsæriskenningu Renauds Camus. Snorri kynnir hins vegar til sögunnar lýðfræðilega og siðmenningarlega ógn við tilvist og sjálfsmynd þjóða.

Grein sem Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, birti nýlega í Viðskiptablaðinu um fæðingartíðni, innflytjendur og hnignun vestrænnar siðmenningar fellur að mörgu leyti að hugmyndakerfi svonefndrar útskiptingarkenningar (á frönsku: Le Grand Remplacement).

Hugmyndin um Le Grand Remplacement er rakin til franska rithöfundarins Renauds Camus (f. 1946). Hann er menntaður bókmenntafræðingur og heimspekingur, og var virkur þátttakandi í menningarumræðu frönsku vinstrielítunnar á áttunda og níunda áratugnum. Camus segist hafa fengið „vitrun“ árið 1996 sem varð upphafið að hugmyndafræði hans um lýðfræðilegt og menningarlegt hrun Evrópu. Síðar stofnaði hann eigin stjórnmálaflokk sem boðar svonefnda remigration — að senda beri innflytjendur og fjölskyldur þeirra aftur til upprunalandsins og stöðva alla innflytjendur til frambúðar.

Í bók sinni Le Grand Remplacement (2011) heldur Camus því fram að markmið einhverra sé að skipta „innfæddum“ Evrópubúum smám saman út fyrir innflytjendur, einkum frá Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Hann lýsir þessu sem „þögulu þjóðarmorði“ gegn hvítum Evrópubúum. Kjarni kenningarinnar er sú fullyrðing að innflytjendur og hnattvæðing séu hluti af skipulögðu ferli til að útrýma upprunalegri menningu og íbúum Evrópu.

1441969Snorri Másson (mynd: mbl.is).

Í grein Snorra er þessi hugmyndafræði staðfærð í íslenskt samhengi. Hann lýsir yfirvofandi „hruni vestrænnar siðmenningar“ og segir: Fæðingartíðnin er farin veg allrar veraldar, innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum og að óbreyttu lenda heimamenn í minnihluta eftir nokkra áratugi“. Þannig er dregin upp mynd af lýðfræðilegri og menningarlegri ógn í anda Le Grand Remplacement.

Snorri tengir þessa þróun beint við menningu og þjóðtungu: „Einstakur arfur kynslóðanna og söguleg samfella í þúsund ár eru í húfi.“ Í grein sinni víkur hann jafnframt að því að „vandræðalaust sé að skipta þjóðinni út…“

Þetta orðalag er nánast bein þýðing á kjarnahugmynd kenningarinnar — remplacer le peuple, að „skipta út þjóðinni“. Þótt Snorri noti setninguna að nokkru í háði, sýnir notkunin hvernig hugmyndafræðin síast hér inn í almenna þjóðmálaumræðu.

Snorri styður röksemdir sínar meðal annars við grein stjórnmálafræðingsins Darel E. Paul í bandaríska netritinu Compact Magazine. Hann skrifar þar að nýlega hafi birst „góð greining“ sem sýni að samband sé á milli innflytjendastraums og lækkandi fæðingartíðni.

Compact Magazine er bandarískt tímarit, stofnað 2022, sem boðar þjóðernissinnaða vinstri gagnrýni á frjálslynda hnattvæðingu. Það er ekki ritrýnt fræðirit heldur pólitískur vettvangur með greinum sem endurspegla hugmyndafræðilega afstöðu höfundanna.

Darel E. Paul, prófessor við Williams College, hefur fjallað um tengsl fólksflutninga og fæðingartíðni og fullyrðir í grein sinni Mass Immigration Lowers Fertility (Compact, 17. janúar 2024) að innflytjendur „flýti“ fyrir fólksfækkun fremur en að bæta úr henni. Þessi röksemd er ekki óskyld útskiptingarkenningunni um lýðfræðilega umbreytingu, þótt Paul taki ekki undir fullyrðingar um samsæri eða áætlun um að „skipta út“ þjóðum.

Snorri Másson tekur ekki heldur undir samsæriskenningu Renauds Camus. Snorri kynnir hins vegar til sögunnar lýðfræðilega og siðmenningarlega ógn við tilvist og sjálfsmynd þjóða. Slíkar hugmyndir hafa víða í Evrópu og Bandaríkjunum orðið hluti af nýrri þjóðernishyggju.