Útlendingamál í brennidepli
Útlendingamál setja sífellt meiri svip á stjórnmál alls staðar í heiminum. Pútin og félagar kynda undir vanda af þessum toga hvar sem þeir geta. Við landamæri Finnlands, Póllands og á mörkum Serbíu og ESB-ríkja.
Það fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með heimsfréttunum að vinslit urðu, að minnsta kosti um sinn, milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Elons Musks, auðmanns og aðgerðarsinna.
Hér verða opinber orðaskipti þeirra félaga ekki rakin. Musk sagði að Trump væri á lista Epsteins, auðmanns í New York, sem andaðist í fangelsi eftir að hann var handtekinn fyrir kynferðislega misnotkun af ýmsu tagi. Trump hafnar ásökunum Musks og segir hann GALINN.
Bandarískir þjóðvarðliðar gráir fyrir járnum verja alríkisbyggingar í Los Angeles í óeirðum vegna útlendingamála.
Í grein sem Ian Ward, blaðamaður vefsíðunnar POLITICO, birti 7. júní segir að deilan milli forsetans og auðmannsins endurpegli djúpstæðan ágreining milli tveggja fylkinga meðal stuðningsmanna Trumps í útlendingamálum. Annars vegar séu þeir sem vilji halda opinni leið fyrir hámenntaða innflytjendur og hins vegar séu þjóðernissinnaðir popúlistar undir forystu MAGA-hugmyndafræðingsins og baráttumannsins Steves Bannon. MAGA-liðar hafi viljað að Trump lokaði fyrir útgáfu á H-1B-vegabréfsáritunum við framkvæmd innflytjendastefnu sinnar. Svonefndir hægri tæknisinnar (e. tech right) undir forystu Musks hafi viljað að Trump heimilaði H-1B-áritanir til að ýta undir hagvöxt og tækniframfarir. Trump tók afstöðu með Musk og félögum hans.
Þetta hafi legið fyrir 26. desember 2024, eftir að Trump var kosinn, en áður en hann settist í embætti. Málið sé þó ekki dautt og deilurnar hafi blossað upp að nýju á bak við tjöldin í Hvíta húsinu eftir að Trump flutti þangað inn í janúar 2025. Nú sé deilan enn undirrót þess að Trump og Musk takist á opinberlega.
Bannon og MAGA-félagar hans styðja eindregið fjárlagatillögur Trumps sem Musk hefur gagnrýnt harðlega. Þar er gert ráð fyrir að 155 milljörðum dollara verði varið til að framkvæma útlendingastefnu Trumps, meðal annars fjöldabrottvísanir. Þetta sé stórsigur fyrir Bannon og félaga.
Ian Ward segir að síðan 2016 hafi útlendingamál verið þungamiðjan í hugmyndafræði Trumps. Þau hafi leitt hann til valda þá og aftur núna. Annað hafi hins vegar ráðið mestu um stuðning Musks og annarra auðmanna við Trump. Þeir vilji stöðva hallann á ríkissjóði og stöðuga skuldasöfnun hans.
Steve Bannon hefur krafist þess að Elon Musk verði brottvísað frá Bandaríkjunum, hann sé ólöglegur innflytjandi frá Suður-Afríku.
Donald Trump kallaði út 300 þjóðvarðliða til að verja alríkisbyggingar í Los Angeles þegar átök hófust meðal 4 milljóna manna sem búa þar vegna útlendingastefnu forsetans.
Þessi mál setja sífellt meiri svip á stjórnmál alls staðar í heiminum. Pútin og félagar kynda undir vanda af þessum toga hvar sem þeir geta. Við landamæri Finnlands, Póllands og á mörkum Serbíu og ESB-ríkja.
Hér var breytt um stefnu fyrir um það bil 18 mánuðum og dró úr komu innflytjenda. Ný landamæralög sem samþykkt voru föstudaginn 6. júní má rekja til þessara breytinga. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er þó strax tekin til við að grafa undan framkvæmdinni með virðingarleysi fyrir ákvörðunum stjórnsýslustofnana og frumvarpi utanríkisráðherra um vegabréfsáritanir.