Útlendingadeilur í Samfylkingunni
Kristrún formaður setti fundinn með langri ræðu án þess að minnast einu orði á útlendingamálin eða útskýra hvers vegna hún sparkaði gildandi flokksstefnu út í hafsauga. Ekki eitt orð um málið.
Útlendingamál eru almennt erfið úrlausnar á stjórnmálavettvangi en þau virðast sérstaklega erfið fyrir vinstri flokka. Evrópskir jafnaðarmannaflokkar hafa færst til hægri í málaflokknum á undanförnum árum eins og sést vel á annars staðar á Norðurlöndunum.
Í hlaðvarpsþættinum Ein pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir og settur var í loftið 10. febrúar 2024 og vefsíðan Viljinn vakti athygli á 13. febrúar 2024 boðaði Kristrún Frostadóttir flokksformaður stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í útlendingamálum, sambærilega og hún gerði á sínum tíma í ESB-aðildarmálinu og stjórnarskrármálinu. Í nafni raunsæis og skynsemi hafnaði hún einhliða gildandi útlendingastefnu flokksins.
Eftir að stefnubreyting formannsins komst í hámæli gekk maður undir manns hönd til að „jarðtengja“ orð hennar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði 17. febrúar á Facebook að flokksformaðurinn hefði ekki gert annað en að setja bara fram „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála“.
Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins 18. febrúar var Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. prófessor í stjórnmálafræði, kallaður á vettvang. Hann sagði: „Vitlegast að hinkra aðeins og sjá hvaða stefna kemur úr þessu.“ Kristrún hefði enn ekki lagt fram neinar tillögur um breytingar.
Samfylkingarfólki var sem sagt skipað að bíða, stefnan myndi skýrast.
Kristrún Frostadóttir flytur setningarræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 20. apríl 2024 (vefsíða Samfylkingarinnar).
Laugardaginn 20. apríl var flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar haldinn á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra. Kristrún formaður setti fundinn með langri ræðu án þess að minnast einu orði á útlendingamálin eða útskýra hvers vegna hún sparkaði gildandi flokksstefnu út í hafsauga. Ekki eitt orð um málið.
Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, lýsti sorgmædd yfir því á Facebook sama dag og flokkstjórnarfundurinn var haldinn að tillaga hennar um „að endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd verði aðeins gerð með mannúð að leiðarljósi“ hefði ekki verið borin undir atkvæði á fundinum heldur vísað til málefnanefndar.
Af miklum umræðum um málið á Facebook má ráða að mörgum fleiri en Sabine sé misboðið vegna þessa. Magnea Marínósdóttir, formaður málefndarinnar, og Magnús Skjöld, varaþingmaður Samfylkingarinnar, taka til varnar fyrir flokksforystuna. Það þurfi að skoða málið fyrir landsfund í haust.
Augljóst er að afgreiðsla flokksstjórnarinnar á tillögunni var að fyrirmælum flokksformannsins sem vill ekki ræða málið heldur hafa það í nefnd.
Kristrún Frostadóttir áréttaði í ræðu sinni að hún þyrfti, eins og flokkurinn vissi vel, að minnsta kosti „tvö kjörtímabil – það þarf áratug – til að snúa við stjórnarfari síðasta áratugs“. Þess vegna yrðum við „að vera þolinmóð, skipulögð, öguð og samstillt – sýna fólkinu í landinu að við getum unnið samkvæmt áætlun“.
Þessi lýsing á ekki við um ástandið í útlendingamálunum innan Samfylkingarinnar. Þar logar allt stafna á milli vegna þeirra eins og sjá mátti að myndi gerast strax um miðjan febrúar 2024