Útlendingaályktun Varðar – söfnun Solaris
Þess gætir um of að talsmenn opinna landamæra komist upp með að hafa íslensk lög að engu. Þetta á til dæmis við um samtökin Solaris sem segjast nú hafa safnað 60 milljónum króna.
Í Morgunblaðinu í dag (11. mars) er greint frá því að á aðalfundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hafi laugardaginn 9. mars verið samþykktar þrjár ályktanir um útlendingamál: (1) Að neiti einstök flugfélög að afhenda íslenskum tollyfirvöldum upplýsingar um farþega beri að beita þau þeim viðurlögum sem við brotunum liggja. (2) Að taka beri upp tímabundið eftirlit á landamærum Íslands vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi. (3) Að sett verði í forgang á alþingi frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga og þau verði samþykkt á þessu vorþingi. Löggjöfin hér sé sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Unnið skuli áfram að nauðsynlegum lagabreytingum til að koma á lokuðum búsetuúrræðum.
Það er vissulega tímabært að ályktað sé í þessa veru um útlendingamálin á flokksvettvangi sjálfstæðismanna og þar með staðið við bakið á ráðherrum og þingmönnum flokksins sem vilja snúa vörn í sókn í útlendingamálum og koma annarri mynd á þau en birtist í tjaldbúðum Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar á Austurvelli.
Fyrstu tveir liðir ályktunarinnar snúa að framkvæmd mála á Keflavíkurflugvelli en þar er unnt, innan marka Schengen-aðildarinnar, að herða eftirlit við landamærin fyrir utan að knýja flugfélög til að fara að íslenskum lögum.
Albert Guðmundsson, nýkjörinn formaður Varðar.
Vegna þessa skal hér áréttuð sú skoðun að færa eigi löggæslu á landamærunum í hendur embættis ríkislögreglustjóra. Að hafa hana í höndum héraðslögreglu átti við á sínum tíma. Nú eru aðstæður gjörbreyttar og á löggæslan að taka mið af því.
Árið 2022 sóttu 4520 manns um alþjóðlega vernd hér (hælisleitendur), fjöldin var 4155 árið 2023. Á vefsíðunni Heimildinni er í dag skýrt frá því að á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2024 hafi hælisleitendum fækkað um 56% miðað við 2023. Hvort þróunin verði áfram þessi á árinu er óljóst en víst er að settar hafa verið skorður við komu stórs hóps hælisleitenda, það er þeim sem koma frá Venesúela. „Gangi þetta eftir mun kostnaður hins opinbera vegna þjónustu við umsækjendur um vernd dragast verulega saman frá því sem áður var spáð,“ segir á Heimildinni.
Það eru ekki aðeins lög, reglur og framkvæmd landamæravörslu sem skiptir máli þegar litið er til straums hælisleitenda. Pólitíska viðhorfið í viðkomandi landi ræður einnig miklu og undanfarið hafa orðið þáttaskil að því leyti hér eins og til dæmis ofangreind ályktun Varðar sýnir. Þunginn í málflutningi sjálfstæðismanna í þessu máli ræður úrslitum eins og á öðrum sviðum.
Þess gætir um of að talsmenn opinna landamæra komist upp með að hafa íslensk lög að engu. Þetta á til dæmis við um samtökin Solaris sem segjast nú hafa safnað 60 milljónum króna í landssöfnun vegna ástandsins á Gaza. Þau hafa hvorki tilkynnt réttum yfirvöldum hér um þessa söfnun né sótt um leyfi fyrir henni. Um skyldu til þess gilda lög frá 1977 og síðar lög um peningaþvætti til að sporna gegn stuðningi við hryðjuverkastarfsemi. Solaris-samtökin eru ekki undanþegin íslenskum lögum. Það þarf að herða löggæslu víðar en við landamærin.