17.5.2022 11:08

Útilokunarafleikur Viðreisnar

Haft er eftir Þórdísi Lóu að hún hafi „lært í pólitík að útiloka aldrei neitt og ég held að það sé bara mjög mikil lexía.“

Eina leiðin til að skipt verði um forystu í Reykjavíkurborg er að þar verði myndaður D+B+F+C meirihluti, það er sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og fulltrúa Viðreisnar og Flokks fólksins. Meirihlutastjórn af þessu tagi er einnig í samræmi við vilja flestra kjósenda í borginni: Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur og þar með sigurvegarinn, Framsóknarflokkurinn vann mest á í kosningunum, Viðreisn er í grunninn hægrisinnaður flokkur og sömu sögu er að segja um Flokk fólksins.

Það er ekki unnt að rökstyðja að meirihlutaaðild Samfylkingar að kosningunum loknum sé í samræmi við vilja kjósenda eða slíkur meirihluti sé til marks um þáttaskil.

Samfylking og Píratar taka höndum saman og Sósíalistar eiga samleið með þeim í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Útilokunarmenningin (slaufunarmenningin) er hluti stjórnmálastefnu þessara flokka, angi alþjóðlegrar sveiflu meðal vinstrisinna.

Th5rindexÞórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, og Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn (mynd mbl.is).

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, taldi sig geta talað fyrir munn borgarfulltrúa Viðreisnar, Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, í útvarpsþætti að morgni mánudags 16. maí þegar hann sagði hana standa með sér og pírötum í viðræðum um nýjan meirihluta, það er í útilokunarliðinu. Varð þetta fréttastofu ríkisútvarpsins að stórfréttaefni fram yfir hádegi. Virtist fréttastofan hafa treyst orðum Dags B. án þess að sannreyna þau. Síðar lá fyrir að Dagur B. talaði alls ekki fyrir munn Þórdísar Lóu.

Í samtali við mbl.is þennan sama mánudag útilokaði Þórdís Lóa ekki meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Haft er eftir Þórdísi Lóu að hún hafi „lært í pólitík að útiloka aldrei neitt og ég held að það sé bara mjög mikil lexía.“ Viðreisn geti unnið með öllum sem vilji vinna með þeim. Mestu átakalínurnar séu við Sósíalistaflokkinn. „En aðrir flokkar (svo!), eins og Framsókn, höfum við alveg mætur á og getum unnið með, eða Sjálfstæðisflokknum.“

Pawel Bartoszek, fráfarandi borgarfulltrúi Viðreisnar, hann féll í kosningunum, skýrði orð Þórdísar Lóu á þann veg, segir í Morgunblaðinu 17. maí, að hún hefði kosið að „efna til viðræðubandalags með Samfylkingu og Pírötum að afloknum kosningum til borgarstjórnar til þess að minnka líkurnar á því að flokkurinn yrði jaðarsettur í meirihlutaviðræðum“. Það er af ótta við útilokun!

Benedikt Jóhannessyni, fyrrv. ráðherra og þingmanni, stofnanda Viðreisnar, létti þegar hann sá að Þórdís Lóa aðhylltist ekki útilokunaraðferðina og sagði á FB-síðu sinni 16. maí:

„Dagur [B. Eggertsson] hefur því greinilega farið fram úr sér þegar hann eignaði sér Pírata og Viðreisn í yfirlýsingu í morgun, enda hefði það bæði verið afleikur hjá Viðreisn að festa sig í ákveðnu mynstri strax á fyrsta degi, auk þess sem það hefðu verið svik við kjósendur að segjast á föstudegi ganga óbundin til kosninga, en binda sig svo við eitt mynstur strax og úrslit voru ljós.

Það kemur í ljós hver niðurstaðan verður, en útilokunarbandalag Dags styrkir örugglega ekki Viðreisn á þessum tímapunkti.“

Þórdís Lóa ætti að fara að ráðum flokksstofnandans í þessu máli.