Utanríkisráðherra á röngu róli
Stundum mætti halda að það hefði einnig farið fram hjá utanríkisráðherra Íslands að nágrannaríki okkar eru að auka varnir N-Atlantshafs og þar eru Danir, Norðmenn og Bretar nú í fremstu röð.
„Bara þannig að ég tali alveg skýrt, því þú nefndir Grænland. Við myndum aldrei heimila einhverja aðgerð héðan frá Íslandi sem að myndi ógna Grænlandi. Bara svo það sé alveg skýrt,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Íslands við fréttamann mánudaginn 5. janúar 2026.
Það óð á súðum hjá utanríkisráðherranum þennan dag og erfitt að henda reiður á skoðun hennar á atburðarásinni sem hófst með handtöku Maduro-hjónanna á vegum Bandaríkjastjórnar í Caracas aðfaranótt laugardagsins 3. janúar.
Donald Trump hefur frá 23. desember 2024 gefið yfirlýsingar um Grænland og vilja til ítaka þar. Að hann beiti hervaldi til þess þótt hann hafi sent hermenn eftir Maduro og sýni nú forseta Kólumbíu vígtennurnar er langsótt.
Hvað sem því líður þótti Þorgerði Katrínu þörf á að slá þann varnagla sem birtist í tilvitnuðu orðunum hér að ofan. Hvað skyldi utanríkisráðherrann hafa haft í huga þegar þessi orð féllu? Hafði hún fengið einhverjar vísbendingar sem gáfu henni tilefni til þessara orða?
Jens-Frederik Nielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í Nuuk mánudaginn 5. janúar að hann gæti vel skilið ef einhverjir hefðu áhyggjur. Hann sagði einnig:
„En aukið samstarf núna þýðir að við viljum gjarnan endurvekja fyrra samstarf okkar við Bandaríkin. Aðstæður eru ekki þannig að Bandaríkin geti hertekið Grænland. Við eigum ekki að örvænta.“
Greinilegt er að stjórnirnar í Kaupmannahöfn og Nuuk bera nú saman bækur sínar. Þær stefna ekki að því að auka spennuna í samskiptum við Bandaríkjamenn. Leitað verður allra leiða til að koma þeim í betra horf.

Undanfarin misseri hafa dönsk stjórnvöld aukið útgjöld sín til hermála og varna um 90 milljarða danskra króna og hefur stór hluti fjármunanna runnið til þess að auka varnarmáttinn á Grænlandi og Norður-Atlantshafi.
Það sannaðist á dapurlegan hátt sunnudaginn 4. janúar að gjörsamlega hefur mistekist að miðla upplýsingum um þetta stórátak vegna varna Grænlands til Donalds Trump. Hann hæddist að framlagi Dana til varna á norðurslóðum í flugvél sinni þegar hann endurtók gamla brandarann um að þeir væru svo stórtækir að hafa bætt einum hundasleða við varðlið sitt á Grænlandi.
Stundum mætti halda að það hefði einnig farið fram hjá utanríkisráðherra Íslands að nágrannaríki okkar eru að auka varnir N-Atlantshafs og þar eru Danir, Norðmenn og Bretar nú í fremstu röð. Þorgerður Katrín endurtekur nú hvað eftir annað sér til ágætis að stofnað hafi verið til varnarsamstarfs við Finna og Þjóðverja.
Þótt það sé vissulega góðra gjalda vert er okkur miklu nær að standa náið með Dönum, Norðmönnum og Bretum og leggja okkar af mörkum með þekkingu, tækjum og mannafla. Þannig styrkjum við einnig Grænlendinga og tengslin til Kanada og Bandaríkjanna.
Að snúa sér í alvöru að virkri þátttöku í samstarfi um varnir norðurslóða og Norður-Atlantshafs er miklu brýnna verkefni en að gæla stöðugt við sameiginlegar yfirlýsingar við ESB um varnir meginlands Evrópu.