3.9.2018 10:34

Út yfir gröf og dauða í Washington

Útförin var með þeim hætti að fyrir utan forseta Bandaríkjanna hefur aðeins örfáum einstaklingum verið sýndur sambærilegur heiður að þeim látnum.

Útför bandaríska öldungadeildarþingmannsins Johns McCains var gerð frá Þjóðardómkirkjunni í Washington DC laugardaginn 1. september. Hann var síðar jarðsettur í grafreit hermanna í Annapolis, skammt frá Washington.

Útförin var með þeim hætti að fyrir utan forseta Bandaríkjanna hefur aðeins örfáum einstaklingum verið sýndur sambærilegur heiður að þeim látnum. Fyrir þá sem búa utan Bandaríkjanna er erfitt að átta sig á þeirri stöðu sem John McCain hafði skapað sér í bandarísku þjóðlífi og stjórnmálum en tvisvar sinnum barðist hann árangurlaust fyrir að verða forseti Bandaríkjanna.

Eftir athöfnina í Þjóðardómkirkjunni beinist athygli að því hverjir komu til hennar og hvað þeir sögðu sem McCain hafði óskað eftir að flyttu um sig minningarorð. Hann hafði meðal annars gengið frá því að Renée Fleming, óperusöngkonan fræga, syngi lagið Danny Boy í kirkjunni. Hann lét einnig þau boð út ganga að Donald Trump forseti ætti að halda sig fjarri dómkirkjunni. Trump þótti höndla andlát McCains illa, meðal annars virtist þurfa að beita hann þrýstingi til að flaggað yrði í hálfa stöng á Hvíta húsinu.

Glasser-mccain-funeral-rebukes-trumpFrá útför Johns McCains í Þjóðardómkirkjunni í Washington DC.

Susan B. Glaser, blaðakona á vegum tímaritsins The New Yorker, skrifar um útförina á vefsíðu tímaritsins laugardaginn 1. september undir fyrirsögninni: John McCain’s Funeral Was the Biggest Resistance Meeting Yet – Útför Johns McCains stærsti andspyrnufundurinn til þessa. Viðbrögðin við frásögninni hafa meðal annars verið á þann veg að andspyrnuhreyfingin í dómkirkjunni sé sú sérkennilegasta í sögunni, þangað hafi verið boðið fulltrúum ráðandi afla Bandaríkjanna til að árétta andstöðu hins látna við sitjandi forseta, Donald Trump.

Athöfnin stóð í tvo og hálfan tíma. Fyrstu minngarræðuna flutti Meghan, dóttir McCains. Hún lýsti útförinni sem kveðjustund „fyrir mikilleika Bandaríkjanna“ hvorki meira né minna. Þá sagði hún brostinni röddu: „Bandaríki Johns McCains þarf ekki að gera mikil að nýju því að þau eru nú þegar mikil.“ Eftir þessi orð varð hún að gera hlé á máli sínu vegna lófataks.

Strax að athöfninni lokinni spáðu fréttaskýrendur því að oft yrði vitnað til þessara orða í frásögnum af athöfninni. Þeir höfðu rétt fyrir sér eins og sjá mátti í sjónvarpsviðræðuþáttunum í bandarískum stöðvum sunnudaginn 2. september.

Susan B. Glaser segir að þegar dóttir McCains hafi verið hálfnuð með ræðu sína hefði frétt borist úr Hvíta húsinu um að Trump hefði farið þaðan til að spila golf með hvíta húfu þar sem stóð: Make America Great Again en áður hefði hann sent frá sér boð á Twitter: skammir um Hillary Clinton, Robert Mueller, sérstakan saksóknara, og eigið dómsmálaráðuneyti!