4.7.2019 10:17

Ursula von der Leyen biðlar til ESB-þingsins

Vegna þess hve ESB-þingmennirnir eru kappsamir um að sanna völd sín er spurning hvort Ursula von der Leyen fær nægan stuðning á þinginu.

Þjóðverjinn Ursula von der Leyen verður forseti framkvæmdastjórnar ESB næstu fimm árin samþykki ESB-þingið niðurstöðu leiðtogaráðs ESB frá þriðjudeginum 2. júlí. Hún hverfur úr embætti varnarmálaráðherra Þýskalands þar sem hún hefur starfað náið með flokkssystur sinni Angelu Merkel í stjórnum hennar frá árinu 2005.

Angela Merkel greiddi von der Leyen þó ekki atkvæði í leiðtogaráðinu. Hún hafði ekki umboð samstarfsmanna sinna úr flokki jafnaðarmanna til þess. Þeir vildu flokksbróður sinn Frans Timmersmans frá Hollandi í embættið. Sögðust þeir vilja halda fast í spitzenkandidat-regluna og úr því að ekki næðist samkomulag um að styðja oddvita mið-hægri manna, Bæjarann Manfred Weber, ætti að velja þann næsta í röðinni, Hollendinginn Timmermans.

Sigmar Gabriel, fyrrv. formaður þýskra jafnaðarmanna (SPD), sagði flokkinn eiga að slíta samstarfi við Merkel. Bæjarar í systurflokki Merkel, CSU, sögðu von der Leyen hafa komist til valda með klækjum og baktjaldamakki sem þeim mislíkaði.

Manfred Weber sýndi hins vegar þann stórhug miðvikudaginn 3. júlí að leiða Ursulu von der Leyen inn í ESB-þingið í Strassborg og kynnti hana fyrir þeim sem hafa í hendi sér hvort hún fái embættið.

B383827f3750cdd936ea0a17ef595fc3Manfred Weber kynnir Ursulu von der Leyen fyrir EPP-þingflokknum.

Síðan fór hún á fund EPP-þingflokksins, stærsta þingflokksins, og í dag, fimmtudaginn 4. júlí, má lesa lof um framgöngu hennar þar í þýska blaðinu Die Welt. Haft er eftir þingmanni að hún hafi heillað þingflokkinn með blaðalausri ræðu sinni og svörum á þeim 20 mínútum sem gáfust fyrir hana. Hún sagðist ætla að tryggja að spitzenkanditat-kerfið yrði virt. Kerfið er lykilbaráttumál ESB-þingmannanna til að treysta vald sitt innan ESB-stjórnkerfisins. Talaði hún til þingmannanna á þýsku, frönsku og ensku.

Innan EPP eru menn sérstaklega áhugasamir um að vald þingsins sé sem mest þar sem flokkurinn hefur verið stærsti þingflokkurinn í Strassborg áratugum saman. Þótt styrkur flokksins og jafnaðarmanna hafi dvínað er líklegt að EPP hafi undirtökin á ESB-þinginu enn um nokkra framtíð.

Vegna þess hve ESB-þingmennirnir eru kappsamir um að sanna völd sín er spurning hvort Ursula von der Leyen fær nægan stuðning á þinginu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti er eindreginn andstæðingur spitzenkandidats-kerfisins enda má hann sín lítils á ESB-þinginu. Niðurstaðan nú eftir um 30 klukkustunda viðræður í leiðtogaráði ESB er talin Macron og málstað hans til framdráttar. Honum tókst að fá Frakka, Christine Lagarde, samþykktan sem seðlabankastjóra evrunnar og að koma illu af stað innan EPP-flokksins. Charles Michel, Belginn, sem verður forseti leiðtogaráðs ESB er handgenginn Macron.

Að fráfarandi varnarmálaráðherra Þýskalands verði forseti framkvæmdastjórnar ESB hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum. Hvort ESB-þingið samþykkir Ursulu von der Leyen kemur í ljós.