23.10.2025 14:31

Úrlausn í stað slagorða

Verkefnin sem við blasa verða ekki leyst með frösum eða slagorðum. Á því tæpa ári sem Kristrún Frostadóttir hefur setið í embætti forsætisráðherra hlýtur hún að hafa áttað sig á því.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra svöruðu fyrirspurnum þingmanna í morgun (23. október) um viðbrögð stjórnvalda vegna þess að tveir þriðju kerja álbræðslu Norðuráls á Grundartanga eru úr leik vegna bilunar og kunna að verða það mánuðum saman.

1605671Norðurál á Grundartanga (mynd: mbl.is Eggert Jóhannesson).

Norðurál skapaði útflutningsverðmæti árið 2024 sem nam 109 milljörðum kr., það er um 11,4% af heildarútflutningsverðmætum landsins. Fjárfestingar á vegum fyrirtækisins voru 24,6 milljarðar kr., fjöldi starfsmanna 675 og afleidd störf um 1.000. Norðurál er eitt af tíu stærstu fyrirtækjum landsins, hvort sem horft er til efnahagsreiknings eða afkomu.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að bilunin hjá Norðurál hafi áhrif á allt þjóðarbúið. Það hlaupi á milljörðum.

Ráðherrarnir höfðu lítið til málanna að leggja á þinginu í morgun. Forsætisráðherra sagði að enn væri unnið að því að leggja mat á umfang þess sem við væri að glíma. Atvinnuvegaráðherra sagði:

„Það er algjörlega óljóst hvernig þarf að bregðast við. Hvað er hægt að gera? Við verðum bara að gefa svigrúm til að fara vel ofan í saumana á þessu máli. Ég ætla engu að síður að vera bjartsýn fyrir hönd bæði íslensks efnahagslífs og verðmætasköpunar.“

Ríkisstjórnin hefur verið dugleg að slá um sig með frösum. Forsætisráðherra gekk til kosninganna fyrir tæpu ári með „planið“. Hún sagðist þurfa tvö kjörtímabil eða jafnvel 10 ár til að hrinda því í framkvæmd. Síðan myndaði hún „verkstjórn“ til að vinna að planinu og lagði fram um 100 mála þingmálaskrá sem átti helst að klára á liðnu vori ásamt úrvinnslu á um 10.000 tillögum um hagræðingu.

Þingstörfin fóru í handaskolum vegna þess hvernig staðið var að gerð og úrvinnslu veiðigjaldafrumvarpsins sem leitt hefur til samdráttar og svartsýni víða um land.

Þegar þing kom saman í haust var boðuð „tiltekt“ í nafni ríkisstjórnarinnar sem hefur hrakist af þeirri leið vegna verkefna sem koma stöðugt í fangið á ráðherrunum án þess að þeir fái því ráðið en krefjast samt úrlausnar.

„Ríkisstjórnin þarf að svara því skýrt hvernig verði brugðist við þegar ný áföll dynja yfir; loðnuveiði er óviss, horfur í kolmunna og makríl eru daprar, kísilver PCC á Bakka er lokað tímabundið, um 600 manns hafa misst vinnuna eftir gjaldþrot Play og nú liggur hluti starfsemi Norðuráls niðri,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins á alþingi miðvikudaginn 22. október.

Áður en staðan varð alveg á þann veg sem þarna er lýst hafði forsætisráðherra boðað að nú yrði „verðmætasköpunarhaust“.

Verkefnin sem við blasa verða ekki leyst með frösum eða slagorðum. Á því tæpa ári sem Kristrún Frostadóttir hefur setið í embætti forsætisráðherra hlýtur hún að hafa áttað sig á því. Straumarnir í efnahags- og atvinnulífinu eru því miður of neikvæðir til þess að ríkisstjórnin komist hjá því að taka vandann í fangið og sýna hvað í henni býr.