24.7.2017 6:59

Úr Skálholtsdómkirkju í Leifsstöð

Sé í Morgunblaðinu í dag að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði á Skálholtshátíð í gær að ríkið ætti að selja eignir ef það gæti ekki sinnt viðhaldi þeirra.

Sé í Morgunblaðinu í dag að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði á Skálholtshátíð í gær að ríkið ætti að selja eignir ef það gæti ekki sinnt viðhaldi þeirra. Ég vona að hún hafi ekki átt við Skálholtsdómkirkju eða önnur mannvirki á staðnum og haldið að þau væru eign ríkisins.

Skálholt var afhent kirkjunni að gjöf á Skálholtshátíð árið 1963 og hefur síðan verið í eign og umsýslu kirkjunnar sem hefur sjálfstæðan fjárhag og stjórnar sínum eignamálum sjálf. 

Vissulega þarf að halda við byggingum og listaverkum í Skálholti eins og hvarvetna annars staðar og nú hefur verið stofnað til fjársöfnunar til að kosta viðgerðir á gluggum Gerðar Helgadóttur. Um skeið var óttast að altaristafla Nínu Tryggvadóttur hefði orðið fyrir alvarlegum skemmdum í jarðskjálftum á Suðurlandi á þessari öld. Athugun mun hafa sýnt að tjónið var ekki eins mikið og áður var talið.

Laugardaginn 22. júlí var flutt í Skálholtsdómkirkju ein af kantöntum Bachs við sálm Marteins Lúthers. Benedikt Kristjánsson tenór stjórnaði mögnuðum flutningi Bach-sveitarinnar, Skálholtskórsins og einsöngvara. Auk þess flutti Benedikt skýringar á verkinu meðal annars með tóndæmum. Var þetta eftirminnanleg stund og varpaði góðu ljósi á baráttuna sem Lúther háði við páfavaldið fyrir 500 árum.

Þetta er skrifað í einnig af stóreignum ríkisins, flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mannfjöldinn er gífurlegur á þessari morgunstund en afgreiðslan við innskráningu og í öryggisleit var mjög hröð og næg bílastæði til afnota til að geyma bíl á vellinum.

Hafi dómsmálaráðherra áhyggjur af miklum fasteignaumsvifum ríkisins ætti hún að beita sér fyrir mati nauðsynjar þess að ríkið standi að mannvirkjagerð og rekstri flugstöðvarinnar og þess sem er umhverfis hana.