3.10.2023 10:08

Uppstokkun á Grænlandi

Með samkomulaginu er deilumál stjórnarflokkanna um vinnslu á úrani sett til hliðar. Er hugsanlegt að því hitamáli verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðþing Danmerkur og Noregs koma saman eftir sumarhlé í dag, þriðjudaginn 3. október, fyrsta þriðjudag í október.

Í Noregi er ekki unnt að rjúfa þing á kjörtímabilinu og þótt fylgi við ríkisstjórnina hafi minnkað mikið er ólíklegt að hún missi meirihluta sinn meðal þingmanna. Í Danmörku á þriggja flokka stjórnin „yfir miðjuna“ undir forystu jafnaðarmanna líf sitt undir því að Venstre-flokkurinn hafi úthald. Hann mælist nú með 8.7% fylgi en Moderaterna, klofningsflokkurinn sem Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra stofnaði eftir að hann taldi sig sæta ómaklegri meðferð í Venstre mælist með 7,3% fylgi.

Á Grænlandi sömdu stjórnarflokkarnir nú um helgina um að halda samstarfi sínu áfram í von um að ekki þurfi að rjúfa þing og efna til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins í apríl 2025.

Hogni_og_onnurUtanríkisráðherrar Grænlands, Íslands og Færeyja: Vivian Motzfeldt, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Høgni Hoydal.

Þeir sem nú ráða mestu í grænlenskum stjórnmálum eru Muté B. Egede, formaður Naalakkersuisut, landstjórnarinnar, og stærsta stjórnmálaflokksins, Inuit Ataqatigiit (IA), og Erik Jensen, fjármálaráðherra og formaður jafnaðarmannaflokksins, Siumut.

IA er til vinstri við Siumut en jafnaðarmenn hafa lengst verið í forystu í grænlenskum stjórnmálum. Þeir hefðu getað slitið stjórnarsamstarfinu og knúið fram kosningar en kusu þess í stað að leika áfram á aðra fiðlu í stjórninni og semja um fjögur atriði sem bætast við stjórnarsáttmálann frá apríl 2022 og uppstokkun á ráðherraembættum.

Þessi fjögur atriði snúast um heilbrigðismál, umbætur í skattamálum, sjálfstæðismál og námuvinnslu.

Með samkomulaginu er deilumál stjórnarflokkanna um vinnslu á úrani sett til hliðar. Er hugsanlegt að því hitamáli verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ráðuneyti sjálfstæðismála verður endurreist að ósk Siumut. Vivian Motzfeldt úr Siumut, utanríkisráðherra í Naalakkersuisut, verður einnig sjálfstæðisráðherra. Hún var fyrsti formaður grænlensku stjórnarskrárnefndarinnar 2017-2018 og hefur lengi hvatt til virkari sjálfstæðisbaráttu. Í mars 2023 voru birt drög að stjórnarskrá sjálfstæðs Grænlands og ef til vill verða nú meiri umræður um málið.

Spurningin um vinnslu á úrani hefur verið hitamál á Grænlandi árum saman. Hún komst á dagskrá í sumar í tengslum við landsfund Siumut þar sem margir lýstu áhuga á úranvinnslu. IA hlaut á hinn bóginn góða kosningu 2021 vegna andstöðu við slíkan námugröft.

Í grein um grænlensk stjórnmál 2. október á vefsíðunni altinget.dk eftir Martin Breum, sem hér er höfð til hliðsjónar, segir að Muté B. Egede, formaður IA og landstjórnarinnar, sé harður andstæðingur úranvinnslu og standi einnig gegn umdeildum námugreftri skammt frá heimabæ sínum, Narsaq á Suður-Grænlandi.

Greenland Minerals, dótturfyrirtæki ástralska námufyrirtækisins Energy Transition Minerals, hefur höfðað skaðabótamál á hendur grænlenskum yfirvöldum vegna um 70 milljarða DKR tekjutaps. Eftir kosningarnar hafi landstjórnin í Grænlandi á ólögmætan hátt hafnað umsókn fyrirtækisins til námuvinnslu á Suður-Grænlandi. Breum segir að landstjórnin telji sig hafa verið í fullum rétti en risavaxin skaðabótakrafan hafi nú þegar áhrif á stjórnmálin í Nuuk.