Uppnámið magnast til vinstri
Upplausnin lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum er augljós staðreynd. Hún markar tímamót eftir 94 ára setu kommúnista og sósíalista á alþingi.
Löng viðtöl birtast nú við Svandísi Svavarsdóttur, formann Vinstri grænna, sem fengu engan þingmann kjörinn í kosningunum 30. nóvember 2024 og fengu ekki einu sinni 2,5% atkvæða sem er lykillinn að því að vera á ríkisstyrk á því kjörtímabili sem þá hófst.
Framtíð VG er óráðin eins og raunar einnig hins flokksins lengst til vinstri í flokkaflórunni, Sósíalistaflokksins, sem logar nú í illdeilum. Sósíalistar fengu þó nægt fylgi í könnunum til að halda í ríkisstyrkinn en deilurnar í flokknum snúast meðal annars um nýtingu hans.
Efstu sjö á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður í kosningunum 2021 - Gunnar Smári í 1. sæti, Sólveig Anna í 4. særti, nú eru þau skilin að skiptum. Sólveig Anna segist sæta ofsóknum liðsmanna Gunnars Smára (mynd: Sósíalistaflokkurinn).
Sólveig Anna Jónsdóttir, einn stofnenda Sósíalistaflokksins ásamt Gunnari Smára Egilssyni og Viðari Þorsteinssyni, sagði sig úr flokknum á dögunum. Má rekja það til andúðar Sólveigar Önnu á vókisma, það er vorkunnar- og vælumenningunni sem hefur grafið um sig meðal vinstrisinna hér eins og víða annars staðar. Frægt er þegar Sólveig Anna sló Hallgrím Helgason rithöfund út af laginu vegna vókisma hans í hlaðvarpsþætti á dögunum.
Miðvikudaginn 23. apríl birti Sólveig Anna yfirlýsingu um úrsögn sína úr flokknum enda hefði hún ekki um langa hríð séð eins „mikið hatur“ á sér og í skrifum Maríu Pétursdóttur, fyrrverandi formanns málefnastjórnar flokksins. Sér væri lýst sem einhvers konar hættulegum glæpamanni „sem allt gott fólk ætti að hata“. Sér væri líkt við fasista sem talaði gegn mannréttindum.
Af því sem sagt er af samtölunum við Svandísi Svavarsdóttur verður ekki ráðið að neitt sambærilegt uppgjör fari fram innan VG og í Sósíalistaflokknum, enda fær VG ekki neina opinbera fjármuni til að draga fram lífið. Þegar flokkar eða félög lepja dauðann úr skel stofna flokksmenn sjaldan til uppþota, lífsbaráttan á allan hug þeirra.
Það er verra að fréttir af samtölunum beri þess ekki merki að formaður VG líti í eigin barm og á stefnu eigin flokks þegar leitað er skýringa á örlögum flokksins. Engu er líkara að þau hafi verið í höndum annarra, einkum sjálfsæðismanna.
Hér er háð sérkennileg keppni um að finna Sjálfstæðisflokknum allt til foráttu þegar rætt er það sem mönnum þykir hafa farið á annan veg en þeir vildu. Eitt er að fyrrverandi flokksmenn eða minnihlutamenn innan flokksins stundi þessa tegund af vókisma sér til vorkunnar annað að annarra flokka menn telji eigin ófarir séu vegna Sjálfstæðisflokksins.
Það er til dæmis stórt gat í frásögn Svandísar Svavarsdóttur vegna stjórnarslitanna sem tilkynnt voru 13. október 2024 að láta þess ógetið að fáum dögum áður hafði verið ályktað gegn stjórnarsamstarfinu á fundi flokks hennar með þeim fyrirvara að það ætti að vera í höndum flokksins hvenær ályktunin kæmi til framkvæmda með stjórnarslitum!
Allir sáu að með þessari samþykkt var stjórnarsamtarfinu sjálfhætt. Að Svandís reyndi þá að klóra í bakkann með því að neita að sitja í starfsstjórn og öðru klúðri varð til þess að flokkur hennar kolféll í kosningunum. Enginn getur tekið tapið frá flokksformanninum – sama hvað hlaðvarpssamtölin verða mörg.
Upplausnin lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum er augljós staðreynd. Hún markar tímamót eftir 94 ára setu kommúnista og sósíalista á alþingi.