Uppnám vegna návistar sérsveitar
Þeir sem nálgast öryggismál á þeim forsendum að aðgerðir til að tryggja öryggi borgaranna auki hættu í stað þess að minnka hana eru ekki marktækir í umræðunum – hvorki hér né annars staðar.
Í haust verða 22 ár liðin frá því að ég ræddi á alþjóðlegri ráðstefnu á Hótel Loftleiðum að við Íslendingar yrðum að búa okkur undir brottför bandaríska varnarliðsins og meiri þátttöku okkar sjálfra við gæslu eigin öryggis. Velti ég fyrir mér hvort okkur yrði um megn að koma á fót innlendu varnarliði og notaði dæmi frá Lúxemborg til að sýna að það ætti ekki endilega að verða okkur ofviða.
Þetta er líklega sú ræða mín sem oftast er nefnd þótt fáir hafi lesið hana, það má gera hér á síðunni.
Tilefni þess að ég nefni ræðuna núna eru umræður sem orðið hafa eftir að ríkislögreglustjóri ákvað að auka viðbúnað á fjölmennum hátíðum í Reykjavík og hafa þar sérsveitarmenn á vakt eins og fyrst sást í tengslum við svonefnt Litahlaup laugardaginn 10. júní. Þá var einnig gripið til þess ráðs á sjómannadaginn að loka götum úti á Granda í Reykjavík með stórum flutningabílum.
Þessi mynd Árna Sæbergs birtist nýlega í Morgunblaðinu og sýnir sérsveitarmenn í nýjum búningum við nýjan sérsmíðaðan bíl.
Þessar ráðstafanir urðu til þess að þingmaður VG Steinunn Þóra Árnadóttir og síðan flokksformaðurinn Katrín Jakobsdóttir tóku að ala á tortryggni vegna aukinnar aðgæslu af hálfu lögreglunnar og fréttastofa ríkisútvarpsins hljóp undir bagga með þeim eins og ég vakti athygli á með færslu á Facebook-síðu mína sunnudaginn 11. júní. Færslan hefur vakið mikil viðbrögð og er augljóst af athugasemdum lesenda að þeim þykir vegið ómaklega að lögreglunni.
Í Fréttablaðinu í dag birtist skoðun á leiðarastað eftir Magnús Guðmundsson þar sem hann tekur undir málflutning þingmanna VG. Rökin eru haldlaus og snúast um að fyrst verði að ræða ákvarðanir um öryggismál við VG og síðan taka þær. „Við þurfum að skoða hvað það hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag ef við eigum nú að standa frammi fyrir vopnaðri löggæslu á fjölmennum mannamótum,“ segir Magnús. Að sjálfsögðu hefur þetta verið skoðað af þeim sem bera ábyrgð á öryggi borgaranna. Þeir sem gera það ekki og nálgast öryggismál á þeim forsendum að aðgerðir til að tryggja öryggi borgaranna auki hættu í stað þess að minnka hana eru ekki marktækir í umræðunum – hvorki hér né annars staðar.
Magnús Guðmundsson telur að í stað þess að vera á verði þar sem fjöldi fólks kemur saman sé vænlegra „að sjá stoðkerfi lögreglu, sjúkraflutninga og landhelgisgæslu búa við það fjármagn, aðstæður og mannafla sem til þarf til þess að tryggja öryggi borgaranna hvort sem er í starfi eða leik“. Þetta á auðvitað að gera allt en ekki grafa undan þeim þætti sem lýtur að vörn gegn árásum á borð við þær sem gerðar hafa verið á almenning í nágrannalöndunum.
Í upphafi nefndi ég ræðu mína frá september 1995. Til hennar var vitnað í húskarlahorni Fréttablaðsins í dag þar sem Jóhann Óli segir undir millifyrirsögninni: Æstur í her.
„Þingmenn Vinstri grænna komu í halarófu og gagnrýndu öryggisráðstafanirnar um helgina og sögðu þær hættulegt sýndaröryggi. Flokksbróðir Sigríðar og fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hlóð hólkinn og hleypti af á Facebook-síðu sinni. Sjálfsagt er enginn annar hér á landi sem er jafn glaður með fyrirkomulagið og Björn sjálfur. Hver veit nema að með áframhaldandi ógn verði akurinn plægður og blautasti draumur ráðherrans fyrrverandi, um alíslenska hersveit, verði að veruleika fyrr en síðar.“
Þessi samsetningur dæmir sig sjálfur, hann er hins vegar dæmigerður fyrir hjalið í þeim sem þykjast hafa höndlað einhvern æðri sannleika þegar þeir skrifa um öryggismál, að einhver önnur lögmál gildi hér en hvarvetna annars staðar.
Nú veit ég ekki hvað blaðamaðurinn sem þetta ritar er gamall, hann hefur kannski ekki verið fæddur í september 1995. Líklegt er að hann hafi verið það árið 2007 en þá um vorið flutti ég aðra ræðu um öryggismál og Ísland eftir brottför varnarliðisns þar sem ég lýsti því sem gera þyrfti. Þá ræðu má lesa hér.
Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að blaðamenn ræði öryggismál á forsendum sem ég hef kynnt. Þær eru mun haldbetri en það sem VG-menn höfðu og hafa fram að færa í þessum efnum. Áhyggjuefni er ef umræður í Þjóðaröryggisráði fara fram á forsendum VG. Gegn því verður að sporna, að öðrum kosti verður ráðið marklaust.