4.11.2018 10:19

Uppnám meðal pírata og sósíalista

Pólitíski sprengjuþráðurinn er stuttur innan Pírata um þessar mundir og þolgæði sósíalista í verkalýðshreyfingunni vegna gagnrýni er lítið.

Pólitíski sprengjuþráðurinn er stuttur innan Pírata um þessar mundir og þolgæði sósíalista í verkalýðshreyfingunni vegna gagnrýni er lítið.

Tvö nýleg dæmi skulu nefnd þessu til staðfestingar.

Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, sagði sig úr flokknum og vill hverfa úr borgarstjórnarflokki hans. Frá þessu sagði hún á FB föstudaginn 2. nóvember. Þar stóð meðal annars:

„Undanfarnar vikur hef ég gefið Pírötum færi á að snúa frá meðvirkni með eineltishrottum sem notfæra sér strúktúr flokksins til að níða og hrekja burt fólk sem þau telja „ópírataleg“. En ekkert gerist. Aftur og aftur vinna hin freku og óheiðarlegu með óljósum ásökunum, heift og sjálfhverfum túlkunum á grunngildum Pírata. Eftir sitja þeir sem níðst er á ein og óstudd af þeim sem geta stigið inn. Ég hef virkilega vonað að hægt yrði að leiðrétta það sem hefur verið gert rangt, á hlut margra. En það gerðist ekki. Ég vonaði að Píratar væru hópurinn sem myndi aldrei vera rotinn að innan og myndu svo sannarlega standa upp ef það gerðist. En það gerðist ekki! Fólkið sem hagar sér með þessum hætti felur sig á bak við flatan strúktúr, en þetta er ekki flatur strúktúr, þetta er stjórnleysi og vanhæfni! Ofbeldistæki hinna freku!“

Eftir úrsögn Rannveigar Ernu hvarf Atli Þór Fanndal, pólitískur ráðgjafi Pírata, einnig úr flokknum. Hann tilkynnti þetta á FB og hófst tilkynning hans á þessum orðum:

„Ég varð fyrir hrottaleg einelti sem barn. Það hefur kennt mér að ekkert er til sem heitir hlutleysi gagnvart slíku. Kafkaeskt einelti er hugsanlega það ógeðslegasta sem fyrir finnst. Það er ekkert eins ógeðslegt og að upplifa einelti sem hluta af strúktúr. Kerfi sem virðast svo fullt af dysfúnksjón að það hunsar allt mannlegt og fær fólk til að upplifa sig smátt og valdalaus eru nú oftar en ekki hönnuð af mikilli natni og virka nákvæmlega eins og þeim er ætlað.“

Þetta er ógeðfelld lýsing á ástandinu innan Pírata-flokksins.

Explosion-147909_960_720

Sirrý Hallgrímsdóttir sagði í pistli í Fréttablaðinu  laugardaginn 3. nóvember:

„Í byltingu er allt leyfilegt, öllu skal kollvarpað og engin ástæða til að binda sig við úrkynjaða siði eins og almenna kurteisi. Andlegur leiðtogi þessarar hreyfingar virðist vera Gunnar Smári Egilsson sem áður hafði nokkuð óhindraðan aðgang að sjóðum auðmanna. Nú er Gunnar Smári búinn að finna nýjan sjóð, verkalýðsfélagið Efling situr á 12 milljörðum sem nýta má til ýmissa verka. Það þurfti bara að senda gjaldkerann í veikindaleyfi, hún virtist ekki skilja fínni blæbrigði byltingarinnar.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og pólitískur sálufélagi Gunnars Smára, bregst við á þennan hátt á FB:

„Þessi fyrirlitlega manneskja [Sirrý] ásakar mig um óheiðarleika og glæpaeðli. Í raun er hún að ásaka mig um þjófnað; að hin raunverulega ástæða fyrir því að ég hafi gefið kost á mér sem formaður Eflingar hafi verið til að svíkja og pretta og stela.“

Þetta er dramatísk útlistun á því sem Sirrý sagði. Einhverjum kynni að detta í hug: Sannleikanum verður hver sárreiðastur.