4.9.2018 9:50

Uppnám í breskum stjórnmálum

Ríkisstjórn Theresu May hangir á bláþræði þegar þingið kemur saman og einnig framtíð hennar sem forsætisráðherra. Staðan er ekki betri hjá Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins.

Breska þingið kemur saman í dag eftir sumarleyfi. Von Theresu May forsætisráðherra um að samstaða um stefnu hennar vegna úrsagnar Breta úr ESB, Brexit, ykist yfir sumarmánuðina varð að engu. Hið gagnstæða hefur gerst. Deilur innan Íhaldsflokksins eru harðari en áður.

Boris Johnson var utanríkisráðherra á ríkisstjórnarfundinum í Chequers-sumarsetrinu í júlí þegar stefna May var samþykkt. Hann baðst síðan lausnar og lýsir stöðu May á þann veg að hún gangi undir „hvítum fána“ til lokaorrustu við Brusselmenn.

Fyrir utan Boris hafa 20 þingmenn Íhaldsflokksins lýst stuðningi við stefnu sem lýst er með slagorðinu StandUp4Brexit gegn Chequers-tillögunni. Séu þessir þingmenn ákafastir í andstöðu sinni eru aðrir mildari þótt þeir séu á móti stefnu May, þar á meðal er Nick Boles, náinn samherji Michaels Goves umhverfisráðherra sem barðist fyrir Brexit en situr áfram í ríkisstjórninni. Boles vill að Bretar fari úr ESB en skapi sér umþóttunartíma með bráðabirgðaaðild að EES-samstarfinu. Enn aðrir íhaldsþingmenn hreyfa hugmyndinni um að gengið verði að nýju til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Breska þinghúsið í London.

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, sagði um helgina að hann gæti ekki fallist á tillögu May. Hún væri óframkvæmanleg vegna laga og reglna ESB um innri markaðinn. Íhaldsþingmaðurinn Jacob Rees-Mogg, foringi ESB-andstæðinga á þingi, var í Brussel í gær og áttu margir von á harðri deilu hans við Barnier en þeir reyndust sammála um að Chequers-tillagan væri „tóm vitleysa“.

Ríkisstjórn Theresu May hangir á bláþræði þegar þingið kemur saman og einnig framtíð hennar sem forsætisráðherra. Staðan er ekki betri hjá Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem glímir við ásakanir um að hann sé gyðingahatari og komi í veg fyrir að flokkurinn samþykki stefnu er kennd við International Holocaust Remembrance Alliance þar sem gyðingahatur er skilgreint. Þá er hvatt til þess að flokkurinn gefi út yfirlýsingu um að rangt sé að saka menn um rasisma þegar þeir nota málfrelsi sitt til að ræða ísraelsk stjórnmál.

Áhrifamiklir breskir stjórnmálaskýrendur velta nú fyrir sér hvort verði fyrr til að draga sig í hlé vegna andstöðu eigin flokksmanna Theresa May eða Jeremy Corbyn.