Upplýsingafalsanir um áfengissölu
Nú þegar glímt er við COVID-19-faraldurinn er enn hafin herferð í krafti upplýsingafalsana með umræðum um sölu á áfengi.
Þegar alþingi kom sama eftir jólaleyfi 20. janúar 2009 var dagskrá þess m. a. svona:
· Vátryggingarstarfsemi, stjfrv., 225. mál, þskj. 304. --- 1. umr.
· Greiðslur til líffæragjafa, stjfrv., 259. mál, þskj. 419. --- 1. umr.
· Sala áfengis og tóbaks, frv., 37. mál, þskj. 37. --- 1. umr.
· Olíugjald og kílómetragjald, frv., 40. mál, þskj. 40. --- 1. umr.
· Andstaða við eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu, þáltill., 49. mál, þskj. 49. --- Fyrri umr.
· Tóbaksvarnir, frv., 57. mál, þskj. 57. --- 1. umr.
Allt lék á reiðiskjálfi í samfélaginu 20. janúar 2009 og efnt var til mikilla mótmæla á Austurvelli og umhverfis Alþingishúsið. Þeir sem á þingi sátu eða vissu hvernig dagskrá þingsins var samin sáu strax að ofangreind dagskrá hefði verið tekin saman á þingtæknilegum forsendum en ekki með hliðsjón af pólitískum veruleika enda var öllum dagskrármálunum ýtt út af borðinu.
Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir gripu andstæðingar ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans til herferðar að hætti upplýsingafalsara um að vilji meirihlutans að baki þingforseta og ríkisstjórn hefði staðið til þess að ræða aukið frjálsræði í sölu áfengis og tóbaks þennan örlagaríka dag. Að upplýsingafalsararnir nefndu ekki andstöðu við eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu sýnir úr hvaða átt þeir komu, þetta var eitt af baráttumálum NATO-andstæðinga á þessum tíma.
Nú þegar glímt er við COVID-19-faraldurinn er enn hafin herferð í krafti upplýsingafalsana með umræðum um sölu á áfengi. Þeir sem lengst ganga í fölsununum láta eins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vilji tafarlaust breyta reglum um sölu á áfengi á þann veg að unnt verði að panta það á netinu og fá það sent heim til sín í sóttkvína.
Tillögurnar sem um er að ræða lágu fyrir um áramót og fóru í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar. Þangað eru þær sendar til að kalla á umræður. Engar tillögur hafa verið lagðar fyrir alþingi. Veitingamenn, innlendir aðilar og brugghús hafa vakið máls á því að frumvarpið gæti jafnað stöðu innlendra framleiðenda við erlenda keppinauta þeirra.
Að tengja þetta mál við COVID-19 er rangt, að telja málið hafa forgang hjá ráðherra er einnig rangt. Netviðskipti Íslendinga við áfengissala erlendis eru lögleg, verði þessi breyting gerð með samþykki alþingis jafnar hún stöðu innlendra og erlendra aðila.
Arnar Sigurðsson, eigandi Sante ehf., sagði í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 1. apríl:
„Fyrir ýmsum kann að hljóma undarlega að hið opinbera hafi nú stöðvað íþróttastarf en heldur áfengisverslunum opnum sem yfirtroðast eftir hádegi á föstudögum, jafnvel af viðskiptavinum í misábyrgu ástandi. En heimsending á þessari tegund matvöru er bönnuð, allt saman á grundvelli lýðheilsusjónarmiða!
Veitingastaðir mega selja vín en einungis til neyslu innandyra innan um aðra gesti. Heimsending á tilbúnum mat er heimil en ekki á víni!“
Þessum reglum verður ekki breytt hér nema með lögum. Engin tillaga liggur fyrir um það. Í öðrum löndum gilda aðrar reglur og aðferðir við að breyta þeim.
Borgarstjórinn í Boston breytti reglum á þann veg að veitingastaðir í borginni þurfa ekki sérstaka heimild til að selja mat til þeirra sem neyta hans ekki á staðnum. Borgarstjórn New York afnam reglu frá bannárunum sem bannaði sölu á víni og sterku áfengi með mat sem viðskiptavinir tóku með sér af matsölustað. Svipaðar bannársreglur hafa verið afnumdar í ríkjunum New Hampshire, Texas og Maryland.
Eitt er að berjast gegn áfengisneyslu annað að ljúga upp á stjórnmálamenn. Þeir sem stunda lygar til að sverta andstæðinga sína gera engum málstað gagn.