8.2.2025 10:53

Upplausn í borgarstjórn

Þessa greiningu verður að hafa í huga þegar rætt er um framhaldið í borgarstjórninni, þar er einfaldlega hver höndin upp á móti annarri og afgreiðsla stórmála geldur þess.

Hér var bent á fyrir tveimur dögum að samtal Andreu Sigurðardóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, við Einar Þorsteinsson borgarstjóra í Dagmálum benti til þess að það hrikti ekki aðeins í samstarfi meirihlutans í borgarstjórn heldur væri það að komast á rautt hættustig.

Síðan gerðist það upp úr klukkan 19.30 í gær (7. febrúar) að Einar tilkynnti að hann hefði kynnt oddvitum samstarfsflokka sinna í borgarstjórn (Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar) að hann hefði ákveðið að slíta meirihlutasamstarfinu.

Þrátt fyrir að í þetta hefði stefnt og á fleiri stöðum en hér hefði verið bent á að leiðarlok nálguðust var okkur flutt sú frétt í sjónvarpsfréttum ríkisins klukkan 19.00 að það væri ekkert óeðlilegt við þessa oddvitafundi í ráðhúsinu eða að þeir yrðu áfram um helgina. Annaðhvort var þar um óskhyggju fréttamannsins að ræða eða heimildarmenn hans lugu að honum. Stuttu eftir að fréttatímanum lauk birtist fréttaborði efst í næsta dagskrárþætti um að vinstri meirihlutinn í borgarstjórn væri fallinn.

Screenshot-2025-02-08-at-10.52.13

Við myndun nýfallna meirihlutans rifjast upp að Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, vildi ekki styðja Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna áfram í meirihluta. Nú segir hún meirihlutann hafa verið verklausan og stemninguna súra. Samstarfið hafi verið ógagnlegt fyrir borgarbúa og borgarstjóri hafi ekki valdið verkefnum.

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, sagði á FB 7. febrúar að það hefði verið „ansi merkilegt að starfa í borgarmálunum síðustu misserin og horfa jafnt og þétt upp á óþolið vaxa milli meirihlutaflokkanna í borgarstjórn“. Hann sagði óþolið snúast „um núning milli einstaklinga, ólíkar týpur og vanhæfni á ýmsa kanta í að tækla persónulegan ágreining frekar en um málefni“.

Þessa greiningu verður að hafa í huga þegar rætt er um framhaldið í borgarstjórninni, þar er einfaldlega hver höndin upp á móti annarri og afgreiðsla stórmála geldur þess.

Nú telur píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir að Einar borgarstjóri hafi farið á taugum vegna þess að skoðanakönnun hafi sýnt 3,3% fylgi framsóknarmanna í borginni; þeir fengu 18,7% og 4 borgarfulltrúa 2022.

Samfylkingarfólkið er eins og sakleysið uppmálað, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður borgarráðs [eftir kjör Dags B. á alþingi] segir á Vísi í dag að ekkert í samstarfinu gefi tilefni til ákvörðunar Einars, engar kröfur eða samtöl hafi „farið fram innan meirihlutans um mikilvægi þess að breyta um kúrs fram að þessu“. Á FB segir Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, í dag: „Því miður lyktar atburðarás síðustu daga af óheilindum og slíkt er aldrei vænlegur fylgifiskur í stjórnmálum.“

Við slit meirihluta er ekki unnt að ganga til aukakosninga. Nú þarf að gera úttektir um stöðu fjármála, bensínsstöðvamála, lóðabrasksmála, flugvallarmála og samgöngusáttmála auk allra annarra ófremdarmála svo að borgarbúar viti um stöðuna. Það er stórhættulegt fyrir hvern sem er að detta ofan í þessa leðju án þess að hafa fótfestu um raunveruleikann, botninum er örugglega ekki náð.