2.7.2020 10:07

Upphlaup vegna refsileysis fíkniefna

Þeir sem þekkja til gangs mála á alþingi og meðferðar á viðkvæmum málum sem þessum vita að þau þurfa lengri meðgöngutíma en flutningsmenn ætluðu þessu máli.

Eftir að fundum alþingis lauk aðfaranótt þriðjudags 30. júní urðu hörð orðaskipti á opinberum vettvangi vegna þess að meirihluti þingmanna felldi frumvarp stjórnarandstæðinga undir forystu Halldóru Mogensen pírata um að bann við vörslu, kaupum og móttöku fíkniefna yrði fellt brott. Þar með yrði öll sú háttsemi sem neytendur vímuefna kynnu að viðhafa felld brott úr lögunum og refsileysi neytenda vímuefna tryggt, eins og segir í greinargerð frumvarpsins.

Hand-pills-overdose-1024x640Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki, flutti frávísunartillögu við frumvarpið með þeim orðum að mikilvægt væri að neysla fíkniefna og varsla skammta til eigin neyslu yrði ekki refsiverð og að fremur væri lögð áhersla á stuðning en refsingar og fleiri einstaklingum þannig komið til hjálpar en ella.

Í greinargerð tillögu Höllu Signýjar kom fram að athugun í þingnefnd hefði leitt í ljós verulega galla á frumvarpinu:

  • hvorki var haft samráð við lögreglu né heilbrigðisyfirvöld við gerð frumvarpsins, jafnvel þótt þetta séu þeir aðilar sem muni vinna mest að þessu málefni,
  • málið fékk ekki nægjanlega vinnslu í nefndinni og var tekið hálfklárað út úr henni í stað þess að finna þann farveg sem skilar markmiði frumvarpsins í sátt,
  • þörf er á frekari skilgreiningu á neysluskömmtum,
  • mikilvægt er að reynsla fáist á úrræði eins og neyslurými áður en frumvarpið verður afgreitt og
  • mikilvægt er að skoða betur hvernig verði tekið á upptöku skammta og á neyslu og vörslu barna á fíkniefnum.

Frávísunartillagan var felld við afgreiðslu á þingi en einnig frumvarpið sjálft með 28 atkv. gegn 18 atkv. Með afgreiðslu málsins var illa unnið frumvarp fellt en ekki fallið frá að ræða efni málsins frekar og taka til meðferðar eftir nánari athugun.

Þeir sem þekkja til gangs mála á alþingi og meðferðar á viðkvæmum málum sem þessum vita að þau þurfa lengri meðgöngutíma en flutningsmenn ætluðu þessu máli. Eftir að meirihlutinn hafnaði þessu hálfkaraða frumvarpi sýnir málflutningur flutningsmanna að fyrir þeim vakti að slá pólitískar keilur á kostnað þeirra þingmanna sem vildu stíga varlegar til jarðar.

Fyrir 12 árum var tekist á um hvort fara ætti að fyrirmynd Svía og herða refsingar til að útiloka vændi. Við vorum nokkrir sem höfnuðum rökunum fyrir að „sænska leiðin“ dygði til þess og var andstaða okkar blásin upp, líklega vegna þess að hún þótti „gamaldags“.

Þegar nýr meirihluti myndaðist á þingi eftir bankahrunið og Jóhanna og Steingrímur J. settust við völd með stuðningi Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins var „sænska leiðin“ í vændismálum lögfest með hraði af yfirgnæfandi meirihluta á þingi og fyrirheitum um upprætingu vændis hér á landi. Er málum þannig háttað nú 11 árum síðar?

Pólitískt upphlaup vegna nýmæla er oft innihaldslaust þegar grannt er skoðað.