27.11.2017

Upphafning á kostnað annarra

Í Morgunblaðinu birtust um helgina tvær frásagnir sem sýna hve fallvalt er að reisa frásagnir sínar á veikum grunni, ímyndun eða skorti á upplýsingum.

Nokkrar ævisögur samtímanna birtast fyrir þessi jól. Í kafla sem birtist úr sögu Gunnars Birgisson, fyrrv. alþingismanns, mátti lesa að hann hreykti sér af því að hafa andmælt Davíð Oddssyni, þáv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, vegna fjölmiðlafrumvarpsins sumarið 2004. Má jafnvel skilja orð Gunnars á þann veg að það sé til fyrirmyndar og fordæmisvert að standa uppi í hárinu á flokksformönnum. Gunnar segir „menn voru mígandi hræddir um að missa af einhverjum póstum. Foringjahollustan var algjör.“ Þetta eru ómakleg ummæli um okkur sem sátum með Gunnari í þingflokki. Þetta er þó gamalkunnugt stef. Menn hafa löngum leitast við að upphefja sjálfa sig.

Sjaldan er nokkurt verk í stjórnmálum eins manns verk. Spurningin snýst um að hafa hæfileika til að laða menn við fylgis við málstað. Að láta eins og þeir sem vinna að framgangi mála með því hugarfari séu verri stjórnmálamenn en hinir sem hafa hátt eða í heitingum við eigin flokksmenn er ósannfærandi.

Í Morgunblaðinu birtust um helgina tvær frásagnir sem sýna hve fallvalt er að reisa frásagnir sínar á veikum grunni, ímyndun eða skorti á upplýsingum.

Annars vegar bendir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri blaðsins, á ranghermi í ævisögu Sveins Eyjólfssonar, fyrrv. blaðaútgefanda, þegar Sveinn segir frá fundi ritstjóra Morgunblaðsins með stjórn blaðsins. Þessi kafli í bók Sveins hefur birt sem kynningarefni á bókinni og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur sérstaklega nefnt kaflann til að bregða flokkspólitísku ljósi á Morgunblaðið.

Líklega er tilgangur Sveins og Þórðar Snæs sá sami að sýna að fjölmiðlar sem þeir hafa stýrt eða stýra séu betri en Morgunblaðið sem sé fjarstýrt af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru gamlar lummur og farnar að skemmast eins og Styrmir lýsir þegar hann leiðréttir það sem segir í ævisögu Sveins. Styrmir segir:

„Ummæli sem ég á að hafa viðhaft við Davíð [Oddsson] skv. bókinni og eru birt innan gæsalappa eru tilbúningur..“

Sumarmynd af Seðlabankahúsinu leiðir hugann frá frosthörkunum,

Í Reykjavíkurbréfi fjallar Davíð Oddsson um símtal sitt og Geirs H. Haarde sem birt var fyrir viku í Morgunblaðinu og olli miklu uppnámi meðal þeirra sem höfðu árum saman birt spuna um efni þess. Sumir þeirra töldu að endurritið væri falsað sem reyndist rangt. Aðrir töldu ástæðu til að draga í efa að Davíð hefði ekki vitað um hljóðritun símtalsins án þess að skýra hvaða máli það skipti, öðru en því að þeir vilja lýsa Davíð ósannindamann. Í þriðja hópnum eru menn eins og Björn Valur Gíslason, fyrrv. varaformaður VG og núverandi bankaráðsmaður í seðlabankanum, sem gaf til kynna að Davíð hefði stolið afriti af símtalinu þegar hann var rekinn úr seðlabankanum.

Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu:

„En vandinn er sá, að þetta símtal var ekki afritað á meðan sá [Davíð] var í bankanum. Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar Rannsóknarnefnd Alþingis vildi fá að sjá ýmis símtöl sem kynnu að hafa þýðingu fyrir vinnu nefndarinnar, sem hafist var handa við afrit samtalanna. Bankastjórinn var þá fyrir löngu horfinn tómhentur úr bankanum og hefur ekki komið inn í það hús síðan, þótt honum hafi verið boðið þangað nokkrum sinnum en ekki haft tök á að mæta.“

Umræður um falsfréttir eru miklar víða um heim. Eitt er að í hita leiksins grípi stjórnmálamenn til þess að mála andstæðinga sína  of dökkum litum. Annað að gefnar séu út bækur án þess að leitast sé við að hafa það sem sannara reynist eða stjórnarmenn í seðlabanka taki sér fyrir hendur að þjófkenna fyrrverandi bankastjóra án þess að hafa nokkuð annað en eigin fordóma í höndunum.