29.1.2024 11:49

UNRWA í sviðsljósinu

Stofnunin hefur því starfað í 75 ár og undir hennar stjórn hefur flóttamönnum fjölgað úr 700.000 í 5.9 milljónir. Hjá stofnuninni starfa nú um 30.000 manns, þar af 13.000 á Gaza, þeir eru flestir Palestínumenn.

Flóttamannastofnun SÞ í Palestínu (UNRWA) var komið á fót árið 1949 af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) til að gæta hagsmuna 700 þúsund palestínskra flóttamanna eftir átökin sem urðu vegna stofnunar Ísraelsríkis árið 1948 með samþykki allsherjarþingsins.

Stofnunin hefur því starfað í 75 ár og undir hennar stjórn hefur flóttamönnum fjölgað í 5.9 milljónir. Hjá stofnuninni starfa nú um 30.000 manns, þar af 13.000 á Gaza, þeir eru flestir Palestínumenn.

Allsherjarþingið hefur ekki horfið frá stuðningi við stofnunina enda nýtur hún stuðnings ríkjanna 57 í samtökum múslímaríkja sem hafa mikil ítök á vettvangi SÞ.

Gagnrýnendur UNRWA segja stofnunina hindra tilraunir til að leysa úr ágreiningi og koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Nægi að benda á að sjálf tilvist UNRWA eigi það undir sér að palestínskir flóttamenn verði ekki borgarar annarra landa. Þeim sé meinað að sækja um ríkisborgararétt og samlagast íbúum nágrannaríkja eins og Líbanon. Þess í stað sé því haldið að Palestínumönnum að þeir geti komið í stað Ísraela í núverandi ríki þeirra. Það verður aldrei með samþykki Ísraela. Á Gaza hafi UNRWA orðið handbendi Hamas-hryðjuverkasamtakanna.

Því til sönnunar lögðu Ísraelar fram gögn föstudaginn 26. janúar sem sýna að starfsmenn UNRWA veittu Hamas-liðum aðstoð við hrikaleg hryðjuverk þeirra í Ísrael 7. október eða beinlínis tóku þátt í þeim. Urðu þessar ásakanir til þess að stjórnendur UNRWA ráku 12 starfsmenn stofnunarinnar á Gaza.

Download-3-

Í The New York Times birtist í dag (29. jan.) frétt um hlut starfsmanna UNRWA í ódæðisverkinu.

Einn er sakaður um að hafa rænt konu. Annar sagður hafa dreift skotfærum. Þriðji talinn hafa tekið þátt í fjöldamorði á samyrkjubúi þar sem 97 manns dóu.

Ísraelar lýsa 10 starfsmönnum UNRWA sem félögum í Hamas, sjö þeirra eru einnig sagðir hafa verið kennarar í UNRWA-skólum þar sem þeir hafi kennt stærðfræði og arabísku. Ísraelar hafa margoft gagnrýnt námsefni frá UNRWA eða með blessun stofnunarinnar sem ýti undir óvild í garð Ísraela og kröfur um að þeir yfirgefi land sitt.

Fréttirnar um misnotkunina á UNRWA urðu til þess að stjórnvöld margra ríkja, þ. á m. Íslands, ákváðu að stöðva eða gera hlé á greiðslum til UNRWA. Framkvæmdastjórar SÞ og UNRWA hafa fordæmt Hamas-hollustu starfsmanna UNRWA en segja minna fé til stofnunarinnar auka á gífurlegan vanda íbúa Gaza.

Þegar friðarsamningar milli Ísraela og Palestínumanna sigldu í strand 2009 var það ekki síst vegna ágreinings sem tengdist UNRWA.

Samtökin UN Watch sem fylgjast með því hvort SÞ starfi í samræmi við eigin stofnskrá hefur skráð að minnsta kosti 150 dæmi um að UNRWA-kennarar og starfsmenn hvetji til hryðjuverka, meðal annars til að útrýma gyðingum. Þegar Hamas-hryðjuverkin voru framin í Ísrael sendi grunnskólakennarinn Israa Abdul Kareem Mezher á Gaza þennan boðskap í netheima: Guð er mestur!