Ungliðar gegn lögreglurannsókn
Orðið „skæruliði“ kemur inn í þessar umræður úr stolna farsímanum, einkagögnum sem afrituð voru til afnota fyrir blaðamenn á Stundinni og Kjarnanum.
Í gær, laugardaginn 19. febrúar boðuðu ungliðahreyfingar Pírata, Samfylkingar, Sósíalista, Viðreisnar og Vinstri grænna til mótmæla á Austurvelli í Reykjavík og á Ráðhústorginu á Akureyri. Tilefnið var að mótmæla því sem kallað var aðför að frjálsri blaða- og fréttamennsku,
Í grein á visir.is sagði Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna, að aðförin fælist í því að fjórir blaðamenn hefðu verið kallaðir til yfirheyslu lögreglu með réttarstöðu sakborninga fyrir, að því er virðist, það eitt að hafa skrifað fréttir sem ættu erindi við almenning. Fjölluðu fréttirnar um „skæruliðadeild Samherja“ og fyrirætlanir hennar „meðal annars um að hafa áhrif á kosningar innan stjórnmálaflokka og áætlanir um að ná sér niður á uppljóstrara - uppljóstrara sem ekki hlýddi“.
Ríkisútvarpið flutti laugardaginn 19. febrúar
frétt um að þá um morguninn hefði krafa eins blaðamannanna fjögurra, Aðalsteins
Kristjánssonar, um úrskurð um lögmæti skýrslutöku lögreglu af honum vegna rannsóknar
á stuldi farsíma Páls Steingrímssonar skipstjóra verðið þingfest í Héraðsdómi
Norðurlands eystra. Ákvað lögregla að fresta yfirheyrslunum þar til úrskurðurinn
lægi fyrir.
Mótmæli vinstri ungliða á Ráðhústorginu á Akureyri 19. febrúar 2020 (mynd: mbl.is)
Alexander Kristjánsson skrifaði þessa frétt á ruv.is og segir þar að krafa Aðalsteins sé „í tengslum við svonefnt skæruliðamál Samherja“ eins og fréttamaðurinn orðar þar.
Fréttastofa ríkisútvarpsins og málsvarar hennar vegna rannsóknar á farsímastuldinum afvegaleiða lesendur eða hlustendur með orðunum „skæruliðadeild Samherja“ eða „skæruliðamál Samherja“. Með því er vakin samúð með fjölmiðlamönnum sem sagðir eru sæta ofsóknum „skæruliða Samherja“.
Orðið „skæruliði“ kemur inn í þessar umræður úr stolna farsímanum, einkagögnum sem afrituð voru til afnota fyrir blaðamenn á Stundinni og Kjarnanum. Um er að ræða orðaskipti Páls skipstjóra og annars starfsmanns Samherja um nauðsyn þess að sækja að stjórnendum Samherja með skærum til að herða þá í sókn gegn andstæðingum sínum.
Blaðamenn ákváðu hins vegar að auka á eigið píslarvætti í frásögnum sínum með því að telja sig ofsótta af skæruliðum. Þeir hafa svo undanfarna sólarhringa látið eins og rannsókn lögreglu á símastuldinum og rofi á friðhelgi einkalífs Páls skipstjóra snúist um leit að heimildarmönnum. Hún snýst um að upplýsa farsímaþjófnað og innbrot í símann sé ályktað af því sem fram kemur opinberlega.
Í færslu á Facebook í dag (20. febrúar) segir Páll skipstjóri:
„Það hefur ekki farið framhjá neinum að eftir að síma mínum var stolið fyrir tæpu ári síðan fór af stað atburðarás sem engan endi ætlar að taka. Ég sé að sumum finnst léttvægt að síma mínum skyldi vera stolið og að upplýsingar sem þar fundust hafi réttlætt stuldinn.“
Þarna er kjarna þessa máls lýst. Páll kærði stuldinn til lögreglu. Nú er leitað allra ráða og efnt til pólítískra útifunda í Reykjavík og Akureyri í von um að takist að hindra rannsókn lögreglunnar.