12.11.2024 10:18

Undirróður hvalavina

Við framkvæmd frjálsra kosninga er um heim allan varað við erlendri undirróðursstarfsemi í pólitískum tilgangi. 

Enn einu sinni eru þjóðkunnir blaðamenn með stuðningi formanns Blaðamannafélags Íslands þátttakendur í samræmdri aðgerð í því skyni að koma pólitísku höggi á þá sem tengjast útgerð í landinu.

Að þessu sinni er um næsta lygilega atburðarás að ræða sem lyktaði með birtingu efnis af leynilegri upptöku á samtali Gunnars sonar Jóns Gunnarssonar, alþingismanns og fyrrv. dómsmálaráðherra, við útsendara hvalavina sem skapaði tengsl við Gunnar á fölskum forsendum sem fulltrúi stórs svissnesks fjárfestingafélags.

Því hefur verið flaggað af blaðamönnunum að í samtali Gunnars við leynilega útsendarann hafi komið fram að Jón skipi fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins gegn því að fá aðstöðu í matvælaráðuneytinu til að heimila hvalveiðar.

465076215_18464878915002695_8688254442415787013_nMynd fengin af FB-síðu Páls Steingrímssonar skipstjóra.

Þeir sem telja að staða Jóns Gunnarssonar í matvælaráðuneytinu sem aðstoðarmaður ráðherra dugi til að heimila hvalveiðar taka mið af stjórnarháttum matvælaráðherra VG sem höfðu stjórnsýslulög að engu og settu t.d. fulltrúa í „fagnefnd“ þrátt fyrir yfirlýsta siðferðilega andstöðu hans við hvalveiðar.

Andstæðingar hvalveiða reyna áfram að ná sínu fram, löglega eða ólöglega. Hvernig þeim tókst að fá tvo VG-ráðherra til að ganga gegn stjórnsýslulögum er enn óútskýrt. Að ráða leynilegan erlendan milligöngumann til að klekkja á Jóni Gunnarssyni og fjölskyldu hans sýnir aðeins hve langt þeir ganga.

Hér hafa fleiri mál undir merkjum dýraverndar verið rekin af svipaðri hörku og hvalamálið, reynt er að hafa áhrif á almenning með hvatningu frá útlöndum. Má þar nefna blóðmerahald en dýraverndunarsamtök í Þýskalandi og Sviss birtu á dögunum myndefni frá íslenskum sveitabæjum sem ætlað er að sýna að fylfullum hryssum sé misþyrmt með höggum og spörkum. Stöð 2 sýndi efnið að kvöldi sunnudagsins 10. nóvember. Tilgangurinn er að hafa áhrif á íslenska kjósendur þegar kosningar nálgast.

Við framkvæmd frjálsra kosninga er um heim allan varað við erlendri undirróðursstarfsemi í pólitískum tilgangi. Með skipulögðum herferðum, t.d. dýraverndunarsamtaka, er öðrum þræði verið að nýta sér kosningar til að sanna ágæti og áhrifamátt viðkomandi samtaka. Þegar undirróðursöflin ná tökum á fjölmiðlamönnum og stjórnmálamönnum fagna þau sigri yfir að ná málaliðum í kosningalandinu til að hafa bein áhrif á kjósendur þar. Árangri af þeim toga er mjög hampað við fjársafnanir á vegum slíkra samtaka.

Flest bendir til að nú hafi Jón Gunnarsson afhjúpað nýtt dæmi sem á erindi til þeirra sem vinna að því að tryggja vernd lýðræðisríkja gegn ófögnuði af hálfu alþjóðlegra aðgerðasinna.

Þá hefur einnig birst hér enn eitt dæmið um hve sumir fjölmiðlamenn eru ginnkeyptir og gagnrýnislausir á heimildir sínar. Þeir telja tilganginn, að koma höggi á þann sem þeir vilja skaða, helga meðalið. Þetta hefur komið mörgum fjölmiðlamanninum í koll og gerir enn hvað sem formaður Blaðamannafélags Íslands segir.