21.11.2022 9:28

Undirheimarnir loga

Nú berast ítrekaðar fréttir af átökum í undirheimunum sem bera öll merki þess að um átök glæpagengja sé að ræða

Nýlega birtust fréttir um að mótórhjólamönnum hefði verið snúið við á Keflavíkurflugvelli samkvæmt sérstakri ákvörðun sem styðst við áhættumat lögreglu um að koma mannanna til landsins skapi almannahættu.

Fréttin sýndi að hvað sem líður aðild Íslands að Schengen-samstarfinu er að sjálfsögðu unnt að halda hér uppi landamæravörslu í því skyni að tryggja almannaöryggi.

Nú berast ítrekaðar fréttir af átökum í undirheimunum sem bera öll merki þess að um átök glæpagengja sé að ræða. Eftir skipulagða innrás í veitingastað í liðinni viku blasir við að einhvers konar uppgjör fer fram milli einstakra hópa eða innan þeirra.

Ágætt er að fjölmiðlar leiti til afbrotafræðinga. Þeir greina hins vegar það sem gerst hefur og líta á afbrot sem forvitnileg rannsóknarandlög. Miklu meira máli skiptir að greina þessa þróun frá öðrum sjónarhóli. Það er verkefni greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem hvað eftir annað hefur varað við því að til átaka af þessum toga kynni að koma í undirheimunum.

1378237Fimmtudagskvöldið 17. nóvember ruddust 27 grímuklæddir menn inn á þennan veitingastað í Reykjavík (mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Hér eru hópar sem vinna markvisst gegn því að landamæravarsla sé hert. Dæmi eru um að barist sé fyrir því að leiðum sem greinilega eru skipulagðar af smyglhópum sé haldið opnum til landsins.

Á alþingi krefjast píratar þess að aðgæslulaust af lögbærum yfirvöldum séu umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar með hraði til þingmanna og af þeim.

Félagsleg úrræði og réttindi hælisleitenda eru á þann veg hér að dæmi eru um að þeir sem fengið hafa hæli annars stæðar á Schengen-svæðinu hverfi frá vinnu þar og komi hingað til að lifa á bótum. Sé stofnað til þess að vísa viðkomandi út landi verður svo mikið uppnám í fjölmiðlum.

Ekkert af þessu er í raun nýnæmi fyrir þá sem fylgjast hér með fréttum. Reglan er hins vegar sú að þeir sem gera kröfur um rétt til dvalar eru nafngreindir og persónulegum aðstæðum þeirra lýst af nákvæmni. Þegar kemur að þeim sem valda ótta í samfélaginu er hins vegar haldið leynd yfir uppruna og nöfnum í krafti persónuverndar svo að allt gagnsæi skortir fyrir almenning.

Þótt fréttir berist um tafarlausa og réttmæta brottvísun mótórhjólamanna rís enginn upp þeim til varnar. Þær brottvísanir og afbrotin undanfarið ættu að vekja spurningar um hvers vegna fleiri hópar eru ekki skilgreindir með sama hætti og mótórhjólamennirnir og félögum í hópunum vísað til baka um leið og sést til þeirra á leið inn í landið.

Fljótvirkasta leiðin til að snúast markvisst gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu er að herða landamæravörsluna á Keflavíkurflugvelli og flytja hana undir ríkislögreglustjóra með ákæruvald í höndum héraðssaksóknara samhliða því sem sambærilegt áhættumat og gildir um mótórhjólahópa sé látið gilda um þá skilgreindu hópa sem metnir hafa verið af greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Við það verður ekki unað að mál þróist á þann veg sem lýst er af lögreglu. Það verður að ráðast að undirrótinni og friða landið eftir því sem kostur er. Hér er um málefni að ræða sem krefst aðgerða miklu fleiri en lögreglunnar.