11.5.2021 9:26

Umsögn Guðna

Við útgáfu texta um svo mikilvægt málefni er ógjörningur fyrir höfunda að gera sér grein fyrir hvernig undirtektir verða. Að lokum láta þeir slag standa.

Undanfarna mánuði hef ég ásamt Hlédísi H. Sveinsdóttur, Sigurgeir Þorgeirssyni og Bryndísi Eiríksdóttur unnið að því að leggja grunn að landbúnaðarstefnu í umboði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og hér hefur komið fram kynntum við umræðuskjalið Ræktum Ísland! – landbúnaður á 21. öld ­– miðvikudaginn 5. maí..

Á sunnudaginn tók ég þátt í netfundi sem Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, efndi til á Facebook-síðu sinni en hann má sjá hér  Gestir Njáls Trausta voru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður Landssambands kúabænda og Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, auk mín.

Við útgáfu texta um svo mikilvægt málefni er ógjörningur fyrir höfunda að gera sér grein fyrir hvernig undirtektir verða. Að lokum láta þeir slag standa. Í þessu tilviki höfðum við að vísu traust land undir fótum. Við gerð skjalsins vakti ekki fyrir okkur að „finna upp hjólið“ heldur leitast við að lýsa skoðun sem varð til eftir 64 samráðsfundi með fulltrúum bænda, hagaðila og sérfræðinga auk fjölda óformlegra samtala.

Meðal þeirra sem látið hafa að sér kveða í umræðum um landbúnaðarmál um langt árabil er Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Hann liggur ekki á skoðun sinni um það sem hann telur að betur megi fara. Í upphafi var uppörvandi að fá í veganesti frá honum blaðagrein þar sem hann hvatti bændur til að taka okkur Hlédísi og samstarfsfólki okkar úr ráðuneytinu vel.

IMG_3419Í dag (11. maí) birtir Guðni síðan lofsamlega grein um skjal okkar í Morgunblaðinu. Hann segir:

„Skýrslan er í 19 efnisflokkum og verð ég að segja að vel hefur tekist til og á Björn og samstarfsfólk hans heiður skilinn. Þótt ýmislegt orki tvímælis þá er margt ágætt í skýrslunni. Kristján Þór Júlíusson hefur með þessu framtaki opnað bók sem ég vil trúa að verði landbúnaðinum til heilla og þjóðarsáttar um stefnumörkun og útfærslu. [...]

Bændasamtökin eru að endurskipuleggja allt sitt starf sem einnig var um margt illa komið. Nú er það þeirra að spinna þessar tillögur áfram svo atvinnuvegurinn megi blómstra. Ég hefi á undanförnum misserum sem sjálfboðaliði átt fjölmarga fundi með forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna um málefni landbúnaðar og hvernig væri komið í þeim málaflokki. Innan allra stjórnmálaflokka er vilji til að endurskipuleggja allt umhverfi landbúnaðarins og styrkja á ný stöðu málaflokksins innan stjórnarráðsins. Ábyrgir og framsýnir stjórnmálamenn um allan hinn vestræna heim standa með landbúnaði þjóðar sinnar. Þeir tryggja lífvænlegt starfsumhverfi landbúnaðar m.a. með tollvernd, framleiðslustýringu og styrkjakerfi, þar eins og hér.“

Um leið og Guðna Ágústssyni eru þökkuð vinsamleg orð tek ég heilshugar undir hvatningu hans. Íslenska þjóðin stendur ekki undir nafni án eigin landbúnaðar og tryggt sé að hann dafni í samræmi við kröfur nýrra tíma.